...svo mikið gangi á!

Jæja, þá er lífið farið að ganga sinn vanagang, þ.e. allt vitlaust að
gera! Sem betur fer vilja margir læra að spila á píanó og gítar eftir
eyranu þannig að það er nóg að gera hjá okkur í Tónheimum. Og í
hjáverkum seldum við eitt stykki hús og keyptum annað svo við höfum nú
örugglega alltof mikið að gera í vetur. Við flytjum í minn gamla
heimabæ, Kópavog, sem var reyndar ekkert á stefnuskránni en húsið sem
kom á sölu þar passaði okkur bara svo svakalega að við slógum til og
ætlum að yfirgefa Hafnarfjörð í bili, með trega því okkur hefur liðið
mjög vel hérna. Staðsetning er svo auðvitað í hausnum á okkur eins og
allt annað! Við verðum rétt hjá stúpunni og líklegt að við eigum eftir
að ganga mikið um það svæði með Nóa litla. Salalaugin er skemmtileg og
góðir nuddpottar og nýja líkamsræktin hennar Önnu vinkonu verður á
næsta leyti þannig að þetta er nú bara jákvætt. Ástvaldi líst ekki eins
vel á að verslanir eins og Habitat, Natuzzi og fleiri séu hinum megin
við götuna - er hræddur um að ég komi röltandi með nýtt borðstofuborð á
bakinu einn daginn og nýtt þetta og nýtt hitt hinn daginn! Ég er að
minnsta kosti fljót til nuddarans ef ég fæ í bakið við burðinn því hin
frábæra nuddstofa (nálastungur, hómópatía o.fl.) Fyrir fólk er í
Akralindinni. Talandi um slíkt þá mæli ég líka með honum Kolbeini
www.nalastungur.net en hann fór til Bandaríkjanna eftir að hafa klárað
nuddnám hér og lauk þar námi í kínverskri læknisfræði. Mæli með
honum! 

Vinna á ný!

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí, sem kalla má vinnudag. Við hjónin
erum komin á fullt að undirbúa haustönn hjá Tónheimum, þar sem ungir og
aldnir koma og læra að spila á píanó og gítar eftir eyranu. Er búin að
vera á fullu að svara umsóknum í dag, gera auglýsingu og plana hvar á
að auglýsa og svo framvegis. Þetta hefur eiginlega verið eitt
allsherjar ævintýri síðan Ástvaldur tók á móti nemendum í bílskúrnum í
Hvassaleiti. Alltaf förum við samt í gegnum sama pakkann, óvissu um að
það verði nú nægileg aðsókn á næstu önn og auðvitað séð eftir á að við
hefðum ekki þurft að hafa áhyggjur af því. Skólinn hefur nú verið
starfræktur í 5 ár og er enn að stækka en núna fyrst finnst okkur eins
og skólinn standi á styrkum stoðum, sérstaklega námslega
séð...kartöflurnar eru tilbúnar og ég ætla að stappa þær með miklu
smjöri og setja smá salt á þær.

Núna!

Undanfarin vika var ansi snúin fannst mér. Það er ótrúlega mikil vinna
að undirbúa útför og lítill tími sem gefst til að syrgja. Það verður
eiginlega bara að bíða á meðan "praktísku" hliðinni er sinnt. Eftir
jarðarförina var ég eins og sprungin blaðra en gafst sem betur fer
góður tími til að hvíla mig um helgina. Athöfnin var mjög falleg,
Ástvaldur minn lagði sitt af mörkum þar því hann spilaði bæði með
Hjörleifi fiðluleikara og undir hjá Guðrúnu Gunnars, sem söng Heyr mína
bæn svo fallega að orð fá ekki lýst. Ég mæli líka með séra Karli V.
Matthíassyni sem skilaði sínu hlutverki einstaklega vel. Dauðinn vakti
mig til umhugsunar og minnti mig sterklega á hversu andartakið skiptir
miklu máli og að geyma ekki hluti þangað til á morgun...eða hinn. Það
eina sem við höfum er NÚNA og ég er svo þakklát fyrir iðkunina mína,
sem hefur hjálpað mér til að skilja það og raungera það - það voru ekki
alltaf auðveld spor að stíga að heimsækja pabba og horfa á hversu illa
honum leið og átti oft erfiða tíma síðustu árin en það var
raunveruleikinn og hann vildi ég horfast í augu við nákvæmlega eins og
hann var. Ég sakna hans en ég veit að hann er laus við þjáningarnar og
það skiptir meira máli.

Að leiðarlokum

Elsku pabbi minn, mig langar að þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér á lífsleiðinni. Ég kveð þig sátt í hjarta mínu, þakklát fyrir að hafa fengið að halda í hönd þína síðustu andartök þín í þessu lífi. Ég veit að mamma hefur tekið vel á móti þér og að þið haldist nú hönd í hönd á ný. Ástarþakkir fyrir allt, söknuðurinn er mikill en þakklætið meira yfir að þú sért nú laus við þjáningarnar. Þangað til næst, elsku pabbi...


Bloggleti

Hugurinn er farinn í sumarfrí og nennir ekki að vera streða of mikð, hann vill bara taka því rólega og safna saman kröftum sínum. Ég fann það úti í Berlín að eftir nokkurra daga frí var hugurinn kominn á fullt og vildi fara að vinna en ég harðneitaði og sagði að við værum í fríi. Hann tók þetta mjög alvarlega og hefur ekkert tekið almennilega við sér eftir að við komum heim, vitandi að við erum á leið út aftur eftir rúma viku. Þá er það Ítalía, fimm árum síðar. Ég er til í slaginn og fer í góðan göngutúr á hverjum einasta degi, kannski væri ég ekki alveg eins dugleg ef þetta væru ekki tilmæli frá sjúkraþjálfaranum og að ég finn svo gífurlegan mun á mér og þakka það ekki síst nýju MBT skónum mínum, hinu frábæra þjálfunartæki. þeir verða að sjálfsögðu með í för enda fer ég eiginlega ekki í aðra skó nema ef ég þarf að punta mig sérstaklega.

Veit ekki hvort ég nenni að blogga mikið áður en ég fer, kemur í ljós!


Bráðhugguleg Berlín

Jæja, þá tekur blákaldur raunveruleikinn við eftir draumadaga í Berlín. Ég verð að segja að borgin kom mér á óvart, hún var miklu fallegri en ég átti von á, ódýrari og maturinn er algjör dýrð. Svo er þetta auðvitað gósenland fyrir þá sem spá í heilsusamlegt matarræði, það þarf ekki að fara í sérstakar heilsubúðir til að finna lífrænt ræktaðar vörur, hvort sem það er grænmeti eða annað góðgæti - og verðmunurinn er mikill. Við reyndar keyptum minna en ekkert grænmeti eða annað en morgunmat þar sem við borðuðum alltaf á einhverjum af þessum frábæru veitingastöðum sem finna má þarna. Við fundum t.d. ótrúlega góðan japanskan stað rétt hjá íbúðinni sem við bjuggum í og vorum veik fyrir núðlusúpunum og sushiinu þeirra og borðuðum þar nokkrum sinnum, fyrir utan víetnamskan, ítalskan, taílenskan og svo framvegis. Ætluðum að borða á indverskum eitt kvöldið en fyrir utan staðinn voru veiðimenn sem reyndu að veiða fólk inn á staðinn og sá sem reyndi að veiða okkur fékk ekki mikið á öngulinn því það var nóg til að gera okkur fráhverf og í staðinn fundum við lítinn ítalskan stað þar sem við borðuðum á okkur gat.
Við gengum mikið alla daga og skutluðumst á milli í lestunum en lestarkerfið er frábært og algjör óþarfi að eiga bíl í borginni. Skoðuðum gyðingasafnið sem er merkilegt og ekki síst byggingin sem er flott hönnuð. Gerðum tilraun til að fara í óperuna (fórum út í hléi) en fórum með Stínu mágkonu og Viffa. Ég lét tilleiðast bara til að prófa því það er sagt að maður eigi að prófa en mig hefur aldrei langað á óperu og löngunin kviknaði ekki þarna. Gátum afsakað okkur með að bakið væri slakt (Ástvaldur var hrifinn af þeirri skýringu) en stólarnir voru hryllilegir en ég hefði nú haldið það út hefði ég haft áhuga á sýningunni. Okkur leiddist báðum jafnmikið, skildum ekki orð og ekki heldur textann sem var á þýsku...en það breytir því samt ekki að flutningurinn höfðaði ekki til mín, þannig er það nú bara. Óperuhúsið var flott þannig að þetta var ekki sneypuför og gaman að hafa komið þangað. Skemmti mér betur í dýragarðinum en fannst reyndar dálítið erfitt að horfa á dýrin húka á sínum afmörkuðu svæðum, hundleiddist örugglega greyjunum. Jæja nenni ekki meir enda enn á þýskum tíma og komið vel yfir miðnætti.


The tipping point...

...fékk óþægilega tilfinningu áðan. Var að hlusta á Khachaturian, Adagio of Spartacus á meðan ég var að hlaða inn hljóðdiskinum The tipping point og stuttu síðar opnaðist iTunes store þar sem bent var á marga geisladiska með tónlist Khachaturians. Fannst allt í einu að það væri fylgst með mér, þ.e. einhver annar en hundurinn, sem fylgist með hverri hreyfingu minni.

Mér var bent á bókina The tipping point, eftir Malcolm Gladwell, þar sem hann, eins og segir á baksíðu...looks at why major changes in our society so often happen suddenly and unexpectedly. Ideas, behaviour, messages, and products often spread like outbreaks of infectious disease. Just as a single sick person can start an epidemic of the flu, so can a few fare-beaters and graffiti artists fuel a subway crime wave, or a satisfied customer fill the empty tables of a new restaurant. These are social epidemics, and the moment when they take off, when they reach their critical mass, is the Tipping point.
Hljómar áhugavert og ég ætla að hlusta á þetta í flugvélinni á leiðinni til Berlínar.

Gönguferðin var blaut og hundurinn var fegnari en ég að komast heim! 


Dipló eða hvað?

Það er alveg spurning hvort okkar á erfiðara með að leggja af stað út í þetta veður, ég eða hundurinn. Þetta er eiginlega það er ekki hundi út sigandi veður en ég veit samt að þegar ég er komin í gallann og út þá verður þetta bara hressandi gönguferð - Pollýanna hvað?

Ég er að setja tónlist inn á ipodinn minn af nokkrum af þeim hundruðum geisladiska sem ég á. Óli Palli myndi líklega falla í yfirlið ef hann yrði vitni af því hverju ég er að hlaða inn...og síðan fengi ég ræðuna um hvað er "tónlist" og ég er ekki viss um að mörg þeirra laga sem ég er að hlaða inn myndu falla í þá kategoríu hjá honum. Við rifumst "nokkrum" sinnum um þetta í vinnunni í þá gömlu góðu og stundum var ansi heitt í kolunum en sem betur fer erum við bæði þeirrar gerðar að nenna ekki að vera í fýlu í langan tíma þannig að þetta var búið 5 mínútum síðar.
Eitt rifrildi er nú líklega minnistæðast en það átti sér stað líklega á laugardegi, þegar ég og að mig minnir Skúli Helga sáum saman um Helgarútgáfuna. Óli Palli var tiltölulega nýbyrjaður og var tæknimaður. Ég var stödd úti í bæ með "linkinn" og gott ef ég var ekki einhvers staðar í Grafarvoginum. Ég gat talað við Óla Palla í gegnum tækið og var að gefa honum fyrirskipanir um hvaða lag ætti að spila eftir næstu innkomu. Hann fussaði og sagði að þetta væri ömurlegt lag og að hann vildi ekki spila það. Ég var eitthvað minna dipló á þessum tíma og rauk upp og sagði að hann skyldi spila lagið hvort sem honum líkaði betur eða verr og hann sagðist bara alls ekki ætla að spila það...það hefur örugglega verið dálítið skondin sjón að sjá mig standa þarna eina öskrandi með eitthvað stærðarinnar tæki á bakinu og það er ekki hægt að skrifa hér hvaða orð féllu þarna okkar á milli eða hótanir öllu heldur en eins og önnur rifrildi okkar hafði þetta ekki langan eftirmála. Ég held meira að segja að hann hafi spilað lagið og því ætla ég að hlaða inn einhverju Neil Young lagi sem þakklætisvotti og doldið meira af Bjögga og öðrum vinum mínum. 


Að bindast hlutum er blekking!

Týpískt veður fyrir hátíðahöld á Íslandi! Var að koma úr göngutúr með Nóa, hann er að sjóast, hættur að bakka upp úr pollum og aðeins meiri reisn yfir honum núna en var þegar hann var úti í rigningu. Það er ekki hægt að segja annað en hann hafi hjálpað mér mikið blessaður hvað hreyfingu varðar, ganga er það besta fyrir mig meðan skrokkurinn er að jafna sig og ég færi örugglega ekki svona oft út að ganga ef Nói væri ekki á heimilinu. Stundum fæ ég reyndar smá innilokunarkennd því maður fer ekki óséður á klósettið lengur. Hann fylgir mér hvert fótmál og rífur sig upp úr fastasvefni til þess eins að missa ekki af mér setja í þvottavélina. En hann er alveg frábær og ótrúlega hlýðinn og fljótur að læra. Hann gerir hvað sem er fyrir einn munnbita og er farinn að snúa sér í hring og gera alls konar kúnstir ef von er á einum.
Ég er að hugsa um að skríða upp í sófa með bók - er að lesa bók sem heitir Þrettánda sagan og er nýkomin út á íslensku held ég. Mæli með henni, dulúð yfir henni. Ætla að reyna að láta hana endast fram á fimmtudag en þá er það flugvöllurinn og þar kaupi ég alltaf einhverjar bækur sem ég læt síðan ganga áfram. Hef gert það lengi og las svo í Draumalandinu að Andri Snær hafði merkti bók eða bækur og látið frá sér og rekist svo á síðar einhvers staðar. Það er svo góð æfing finnst mér að gefa bækur, mér fannst það ekkert auðvelt einu sinni en þetta þjálfar hugann og hjálpar til við að sleppa takinu og bindast ekki hlutum. Auk þess sem það er gaman að gefa!


Góður dagur!

Jæja, þá má ekki reykja nánast hvergi...þegar ég hætti að reykja fyrir 8 árum fannst mér að mér þrengt. Ég var farin að skammast mín fyrir reykingarnar og fannst óþægilegt að reykja á almannafæri, fannst ég annars flokks og ekki fannst mér skárra að híma úti á svölum en þó skárra en að láta reykinn vaða yfir dótturina og þar að auki fannst mér reykingalykt vond. Fíknin var samt svo sterk að ég lét mig hafa það að vera á svölunum. Sem betur fer tókst mér að hætta (hafði reyndar hætt áður í heil fjögur ár) en var háð nikótíntyggjó í nokkuð langan tíma. Reyndar hefur mig ekki langað að reykja síðan en oft langað í nikótíntyggjó! Ég er  hlynnt reykingabanni en það er samt einhver togstreita í mér... að það sé ekki hægt að taka ráðin af fólki  og finnst líka að það eigi að vera heimilt að búa til einhvers konar reykingaaðstöðu fyrir þá sem reykja.

Annars eigum við hjónakornin 5 ára brúðkaupsafmæli í dag. Þetta hafa verið góð ár og reyndar liðið ótrúlega hratt. Það er svo ótrúlega margt búið að gerast og okkar sameiginlega verkefni, Tónheimar, hefur vaxið og dafnað og gerir það vonandi áfram. Ástvaldur er byrjaður á nýrri bók og það kvikna nýjar hugmyndir nánast á hverjum degi...það er bara að gefa sér tíma til að framkvæma og auðvitað hafa kjarkinn til þess. Ég hlakka að minnsta kosti til að takast á við þessi verkefni...þ.e. þegar ég er búin með ritgerðina!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband