Veislan í farangrinum

Æ, ég vona að hann Ástvaldur minn verði ekki lagður í einelti í tónleikaferðinni sem er að hefjast í dag með Bardukha. Þeir spila á Höfn í Hornafirði í kvöld, Egilsstöðum á morgun, Húsavík á föstudaginn og Akureyri á laugardag. Já, ég nefndi einelti þarna í byrjun vegna þess að ég held að strákarnir í bandinu verði hissa þegar Ástvaldur opnar töskuna með heilsuvörunum, hvað þá þegar hann dregur mixerinn upp úr farteskinu til að útbúa ávaxtadrykk með hrísmjólk, hnetum og öðru góðgæti. Ég er reyndar viss um að þeir eigi allir eftir að smakka hjá honum drykkinn, jafnvel á meðan þeir gera grín að honum. Málið er bara að það er erfitt að fá góða næringu á ferðalagi um landið, nema einhverjir telji að sveittir hamborgarar eða majoneslöðrandi samlokur geri eitthvað annað en að kítta í æðarna þannig að þá er eina ráðið að hafa þetta með sér (það held ég að Magga nuddari verði ánægð með hann).
Karlinum var sem sagt pakkað niður og sendur út í sveit með sinn heilsupakka og á meðan sit ég og drekk sojalatte og narta í Toblerone súkkulaði, á meðan ég vinn (og blogga doldið). Er reyndar búin að fara í góðan göngutúr með hundinn - tímdi ekki að fara í NBA heilsuskónum afþví það rigndi svo mikið . Skórnir heita reyndar MBT en þegar ég er á þeim geng ég eins og körfuboltamaður í NBA deildinni.  Kíkið á www.mbt.is og skoðið um hvað málið snýst. Ég er að hugsa um að skella mér í annan göngutúr og ganga samviskusamlega á grasinu við hliðina á steypta göngustígnum eins og sjúkraþjálfarinn sagði mér að gera. Hann segir að undirlagið sem við göngum á sé of einhæft og skapi  vandamál þannig að þá er bara að hoppa af stígnum og út á grasið eða skoppa létt milli þúfna.

Senuþjófur!

Einu sinni fór ég á tónleika með Valgeiri Guðjónssyni í "Gamla bíói".
Hann sat á barstól með kassagítar, stemmningin var róleg hann var að
flytja lög af fyrstu sólóplötu sinni - man eftir einu lagi sem heyrðist
nokkuð oft á öldum ljósvakans og heitir "Hver getur læknað kramið
hjarta".  Með Valgeiri  á sviðinu (nokkuð til hliðar þó) var
ungur óþekktur tónlistarmaður sem lék á rafmagnsbassa og það sem var
hvað mest sérstakt og eftirminnilegt við þessa tónleika var einmitt
þessi ungi óþekkti bassaleikari. Hann stal allri athyglinni þar sem
hann spilaði ekki bara af mikilli innlifun heldur var öllu líkara en að
hann væri á tónleikaferð með Iron Maiden eftir tilþrifunum að dæma. Það
kom svo síðar í ljós að það hentaði honum mun betur að vera í forgrunni
því þetta var sjálfur Björn Jörundur, sem stal senunni svona
skemmtilega af Valgeiri (sem var með sólótónleika).

Seinheppin!

Og fyrst ég er byrjuð á vinkonusögum (sem betur fer blogga vinkonur
mínar ekki og skrifa líka vinkonusögur - gæti farið illa fyrir mér) þá
er hér önnur sem við vinkonurnar hlógum mikið að um árið. Þannig var að
við vorum á leiðinni í Ingólfskaffi sem var og hét og þegar við komum
fyrir utan var einni okkar farið að líða hálfilla og ekki tilbúin til
að fara inn. Í því kom aðvífandi ungur og myndarlegur maður, sem hún
hafði reyndar haft augastað á, og tóku þau tal saman. Hann bauð henni
svo að koma með sér upp á Sólon og drekka með sér kaffibolla (þetta var
ekki svona kaffibolli sem breyttist í eitthvað annað - hann meinti
þetta nákvæmlega eins og hann sagði það). Nú, þau settust þar í
rólegheitum og fengu sinn kaffibolla og svo kom að því að vinkonan
sagðist þurfa að bregða sér frá (hefur örugglega ekki sagt að hún væri
að fara á klósettið því hann er svona pen týpa sem þú getur ekki
ímyndað þér að fari á klósettið). Nú, maðurinn beið rólegur...í fyrstu
því það leið og beið og aldrei bólaði neitt á vinkonunni. Það fór að
þykkna heldur í manninum og var þungt í  honum þegar hann
uppgötvaði (að hann hélt) að hún hefði bara ekki haft dug í að segja
honum að hún vildi fara heldur lét sig hverfa og það fannst þessum
sjéntilmanni náttúrulega  alveg síðasta sort og þannig manneskjur
talar maður nú bara ekki við meira. Ég held að henni hafi fundist betra
að hann héldi það frekar en að hann vissi að hún hefði sofnað á
klósettinu og vaknað þegar allir gestir voru á bak og burt og stólar
komnir upp á borð! 

Rangur misskilningur

Fyrir margt löngu lenti ég í ansi neyðarlegu atviki en jafnframt
skondnu. Þetta byrjaði sakleysislega, þ.e. með því að ég bað vinkonu
mína um að geyma fyrir mig veskið mitt (vorum á skemmtistað og ég var
aldrei með tösku). Okkar leiðir skildu undir lok kvölds en ég hafði
litlar áhyggjur því ég fór heim til hennar og var viss um að við myndum
hittast þar. Vinkonan skilaði sér hins vegar ekki heim fyrr en
morguninn eftir og þegar ég fór að leita að veskinu mínu kom í ljós að
hún hafði gleymt því þar sem hún hafði haft næturstað. Hún hafði verið
að leita að einhverju og tekið veskið mitt upp úr töskunni en alveg
gleymt að setja það í hana aftur. Mér var ekki skemmt og sagði að hún
skyldi nú bara drífa sig að ná í veskið en hún bara flissaði og sagði
að hún gæti alls ekki gert það þar sem hún ætti að vera mætt í vinnu
eftir stutta stund. Til að gera langa sögu stutta þá bankaði ég uppá
stuttu síðar í húsi einu í Kópavoginum og bróðurnum var mjög skemmt
þegar ég umlaði að vinkona mín hefði gleymt veskinu "mínu" þarna - yeah
right stóð skrifað á andlit unga mannsins en ég get ekki ímyndað mér
hvað stóð skrifað á mínu!

...þótt hann rigni!

Á maður ekki að drífa sig norður í land eða á austfirðina um
helgina...það er a.m.k. ljóst að ljósfbleiki liturinn á kroppnum sem
tilheyrir vetrinum mun ekki víkja svo glatt með þessu áframhaldi. Ég
verð að gleðja mig með staðreyndum á borð við að of mikið sólarljós sé
hættulegt húðinni (ekki það að ég telji að við séum nálægt því að
nálgast hættumörk hér á landi).  Ég hef reyndar aldrei á ævi minni
orðið brún eins og þar segir. Hef í fyrsta lagi ekki eytt miklum tíma í
sólböð og í öðru lagi er húðin mín þess eðlis að hún verður ekki svo
glatt brún...meira rauðbrún! Helsta ástæðan fyrir því að ég hef ekki
legið mikið í sólbaði er líklega sú að ég á ekki auðvelt að vera lengi
kyrr og svo finnst mér það líka tímaeyðsla. Vil frekar fara í góðan
göngutúr eða sitja á góðu kaffihúsi á góðviðrisdögum. Eins og svo margt
annað þá hef ég tekið nokkur sólbaðsáhlaup með heldur döprum
afleiðingum. Man t.d. eftir einu fyrir 5 árum síðan í sjálfri
brúðkaupsferðinni á Ítalíu. Þá fórum við hjónin á ströndina um hádegi
(þegar ítalir drífa sig heim) og yfirgáfum ströndina um kaffileytið
(þegar ítalir fara að hugsa sér til hreyfings aftur). Til að gera langa
sögu stutta, þá var þetta eitt það heimskulegasta sem við gátum gert og
það var vægast sagt ljótt að sjá á okkur bakið (gátum sko ekki snúið
bökum saman) um kvöldið en aloe vera jurtin bjargaði því sem bjargað
varð og kom í veg fyrir algjörlega svefnlausa nótt! Þetta var ekki í
fyrsta skipti sem ég tók slíkt áhlaup og reyndar ekki það síðasta án
þess að fara nánar út í það en mér er reyndar orðið nokkuð sama þó ég
verði aldrei brún, nota heldur góða sólarvörn og sef vært! Já, það er
líka þessi fína rigning núna!

Langbesta sjoppan sem að ég hef komið í...

Það er ekki flóknara en það að ég hef aldrei fengið eins góðan mat og á Sjávarkjallaranum í gær - þvílík dýrð. Ég sagði bara það sama og í hverri kirkju sem ég heimsótti á Ítalíu - VÁ. Málið er Exotic Menu þar sem hverjum dýrindis réttinum á fætur öðrum er raðað á borðið og það er unun að horfa á þá líka - ekki bara að borða þá. Eins og ég sagði við þjóninn þá er ekkert hægt að segja um þetta því orð ná bara ekki yfir þá sælu sem maturinn þarna er. Mæli með að fara saman í hóp og panta þennan seðil. Ég hugsaði samt sem svo að þeir sem voru búnir með fordrykk eða tvo, og drukku svo nokkuð ótæpilega af rauðu og hvítu með matnum, geta varla hafa notið matarins til fullnustu því bragðlaukarnir eru væntanlega nokkuð dofnir svo ekki sé talað um þokukenndan heila en víman af matnum og því hvernig hann er borinn fram nægir mér.

 

 


Af stað aftur!

Jæja, þá er búið að setja húsið góða á sölu þannig að þeir vinir mínir sem aldrei hafa komið og hafa kvartað undan því verða bara að druslast hingað áður ég er rokin af stað. Fer kannski eitthvað hægar en venjulega á meðan bakið er að jafna sig. Annars finn ég mikinn mun, það er líka eins gott að þessar píningar hjá sjúkraþjálfaranum skili einhverju. Ég er líka mjög samviskusöm og geri æfingarnar sem ég á að gera þrisvar á dag og fer í góða göngu með Nóa á nýju MBT skónum mínum. Skórnir eru alveg frábærir og gera það að verkum að ég er eins og körfuboltamaður í NBA deildinni, þ.e. há í loftinu og hreyfist upp og niður þegar ég geng, þ.e. dúa vel. Mér skilst að maður eigi að nota vöðvana mun meira í þeim en á venjulegum skóm, t.a.m. rassvöðvana þannig að ég sé fram á það að fá sjáanlegan rass með þessu áframhaldi og væntanlega stinnan í þokkabót. Best að drífa sig í æfingarnar áður en haldið er á lokafund með verkefnisstjórn Íslandsmóts iðnnema og á eftir förum við á Sjávarkjallarann og borðum guðdómlegan mat. Mér finnst þessi staður ótrúlega góður, ekki bara fyrir bragðlaukana heldur virkjar hann önnur skynfæri, t.d. augun. Mæli  með honum!

Ég hafði nokkuð gaman af þessum pistli  eins nemanda okkar sem tók Grænt próf í Tónheimum síðustu helgi.  

http://www.heimur.is/heimur/pistlar/details1_pistlarsida/?cat_id=28675&ew_0_a_id=278014 


...áhyggjulaust ævikvöld!

Skrítið hvernig við getum séð hlutina í svona svakalega mismunandi
ljósi - er að horfa á blessuðu stjórnmálamennina og konurnar í
sjónvarpssal og mér finnst alveg eins hægt að spila bara upptökur frá
síðustu eða jafnvel þar síðustu kosningum. Ég hef það ekki slæmt og er
í  góðum málum en ég veit hins vegar að það er víða pottur
brotinn, sérstaklega í velferðarkerfinu, vegna þess að ég á aldraðan
föður og hef þurft að horfa upp á hans þrautagöngu sem gamall maður,
sem á að mínu viti að eiga náðuga daga í lok dags eins og þar segir.
Hann hefur, eins og gjarnan gerist ef við veikjumst og auðvitað
eldumst, þurft á aukinni aðstoð að halda og mér finnst
heilbrigðiskerfið hafa algjörlega brugðist. Í fyrsta lagi var hann á
dvalarheimli í mörg ár á meðan hann átti í raun að vera á
hjúkrunarheimili en það losnaði bara aldrei pláss. Það var ekki fyrr en
hann var búinn að dvelja 2 x einn og hálfan mánuð á spítala með stuttu
millibili og við virkilega  orðin fúl, að hann fékk pláss á
hjúkrunarheimili. Það var ömurlegt að þurfa að horfa á hann á gangi
slysadeildar, ósjálfbjarga, í 12 tíma eftir að hafa dottið niður
stigann á dvalarheimilinu áður en ákvörðun var tekin um að leggja hann
inn.  Sökum plássleysis og að "læknarnir gátu ekkert séð að honum"
þó hann gæti varla stigið í fæturnar og hvað þá komist á klósett án
hjálpar, var hann sendur heim tveimur dögum síðar. Það var ömurlegt að
horfa upp á hann enda var hann kominn upp á spítala tveimur dögum síðar
eftir að hafa kastað upp í 8 tíma (og auðvitað eyddi hann deginum á
slysadeildinni áður en hann var lagður inn) og þá fannst nú reyndar
ýmislegt sem læknum hafði sést yfir nokkrum dögum áður, m.a. að hann
var með sprungna æð í maganum, brákaður og með mikla sýkingu sem ég
uppgötvaði síðar að hafði valdið þessari miklu vanlíðan í marga mánuði.
Ég var alltaf á varðbergi og þurfti oftar en einu sinni og oftar en
tvisvar að berjast fyrir því að hann yrði ekki sendur heim og fékk sem
betur fer hjálp frá dvalarheimilinu því auðvitað var mikið á
starfsfólkið þar lagt að taka aftur og aftur á móti einstaklingi sem
þurfti mun meiri aðstoð heldur en boðið var uppá og flest starfsfólkið
hafði hvorki menntun né þjálfun til að sinna. Okkur var ráðlagt að
sækja um hjúkrunarheimili út um allt,  m.a. á Suðurnesjum og fyrir
austan fjall. Það hefði þýtt að fjölskyldan hefði þurft að ferðast
dágóða stund til að heimsækja gamla manninn og augljóst að
heimsóknirnar hefðu orðið færri heldur en raun ber vitni. Pabbi gamli
hefur búið í Kópavoginum síðan hann og mamma byggðu þar hús uppúr 1950
en þar getur hann því miður ekki endað sína ævi eins og hann hefði
kosið því hann fékk ekki pláss á hjúkrunardeild þrátt fyrir að hafa
beðið í mörg ár eftir því. Fyrir mér er þetta spurning um forgangsröðun
í hinu pólitíska landslagi - ég veit ekki hvort vinstri stjórn getur
gert betur en ég bara veit að það eru til nægir peningar, þeir fara
bara ekki í að byggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Ég hef oft hugsað
að mér finnist það ekki fýsilegur kostur að eldast ef þetta er það sem
bíður mín. Þetta er líka spurning um viðhorf og það snýr að okkur öllum
að huga betur að þeim sem eldri eru og gleyma okkur ekki í erli
dagsins...við höfum bara andartakið!

Frumkvöðlastarf

Úff, þetta var nú meiri helgin. Hún var töff en sérdeilis ánægjuleg. Tvö matarboð, 25 nemendur tóku sitt fyrsta próf hjá Tónheimum og þrennir tónleikar þar sem um 80 nemendur Tónheima spiluðu á píanó og gítar fyrir foreldra, systkini, vini og vandamenn...og nánast engar nótur sáust á nótnaborðinu. Við vorum ótrúlega sæl að sjá öll þessi börn, það yngsta var fjögurra ára, koma upp á svið, og spila af fingrum fram eins afslöppuð og þau voru. Við erum harðákveðin í því næst að ná fullorðna fólkinu upp á svið enda eru flestir nemendur Tónheima fullorðið fólk og sá elsti sem tók Grænt próf á laugardaginn var 55 ára. Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað Ástvaldur er að vinna mikið frumkvöðlastarf. Eins og hann sagði sjálfur í gær, þá óraði hann ekki fyrir þessu þegar hann var að kenna í bílskúrnum um árið. Á síðustu 5 árum hafa Tónheimar vaxið og út hefur komið fyrsta kennslubókin (í seríu af þremur), ný rytmísk námskrá hefur litið dagsins ljós og í allan vetur hefur hann verið að þróa netstuðning í tónlistarnámi og tekið í notkun nýjan kennsluvef. Þú mætir í tíma og áður en þú ferð heim hefur kennarinn tekið upp á tölvu, t.d. lag sem þú ert að æfa þig á. Svo þegar þú kemur heim og manst auðvitað ekki hvernig þú áttir að gera, þá ferðu á netið og inn á kennsluvefinn og horfir á leiðbeiningarnar sem kennarinn gaf í tímanum - tær snilld og Ástvaldur fær 10 stig frá mér í dag þrátt fyrir að ég hafi getað sagt honum hver afmælisgjöfin væri áður en hann rétti mér hana. Samt lagði ég mig sérstaklega fram um að pæla ekkert í því og hunsaði hann algjörlega þegar hann spurði hvað ég vildi. Ég vissi að hann vissi að mig langaði í ipod þannig að ég sagði það þegar hann spurði en hafði samt reynt að verjast því að svara en ég sá að hann ætlaði ekki að láta mig hafa pakkann nema ég svaraði þannig að ég sagði bara: "það stendur Apple á honum" og ég hef sjaldan séð hann glenna meira upp augun en þegar hann át upp orðið "Apple" . Krúttlegt!

Í tilefni dagsins...

Ég veit - er ég dey - svo að  verði ég grátinn,
þar verðurðu eflaust til taks.    
En ætlirðu blómsveig að leggj´á mig látinn
- þá láttu mig fá hann strax.

Og mig, eins og aðra, sem afbragðsmenn deyja,
í annála skrásetur þú;
og hrós um mig ætlarðu sjálfsagt að segja,
en - segðu það heldur nú.

Og vilji menn þökk mínum verðleikum sýna,
þá verður það eflaust þú,
sem sjóð lætur stofna í minningu mína,
en - mér kæmi hann betur nú.

Og mannúðarduluna þekki ég þína,
sem þenurðu dánum í hag.
En ætlirð´u að breiða yfir brestina mína,
þá breidd´yfir þá í dag.

Er búin að vera að leita að þessu ljóði, átti það, týndi því en fann aftur þegar ég var að fara í gegnum gamla dótið hans pabba. Mér finnst þetta ljóð tær snilld en veit ekki hver höfundurinn er. Þetta er áminning um að við höfum aðeins andartakið - við vitum bara ekkert hvað er í gangi á morgun.
Annars eru liðin 44 ár í dag síðan ég var fædd í þennan heim. Það gerðist hratt og er kannski skýringin á því hversu hratt ég hugsa, tala og framkvæmi en mér finnst alltaf jafn merkilegt að eiga afmæli og skil aldrei afhverju það eru ekki allir jafn uppteknir af því og ég, þ.e. að ég eigi afmæli! Dálítið svona ég, um mig, frá mér, til mín en ég á nú bara afmæli einu sinni á ári. Og ef einhver les þetta, vinsamlega ekki benda mér á hver er líka fæddur þennan dag - ég mun aldrei gleyma því og grét úr mér augun á yngri árum yfir því rétt eins þegar Þórunn systir sagði við mig (þegar ég tók hástöfum undir með Bítlunum sem hún var með á grammófóninum) að þeir væru hættir og það fyrir nokkuð löngu síðan. Heimurinn gjörsamlega hrundi á þessu andartaki en ég elsaði þessa hljómsveit og kunni alla textana á tvöfalda rauða albúminu án þess þó að kunna orð í ensku enda ekki nema 9 ára. Svona er lífið hverfult!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 2832

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband