Færsluflokkur: Bloggar

Gúbbífiskaminni!

Var Guðni Ágústsson ekki með í síðustu ríkisstjórn og var hann ekki í
Framsóknarflokknum þegar hann lá á dyrabjöllunni hjá
Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar...maður bara spyr? Mér er hálfillt
að hlusta á ruglið í honum núna í pontu. Margur heldur mig sig!

Um stokka og steina

Tíminn líður aðeins of hratt þessa dagana, mér fannst ég hafa bloggað
nánast í gær eða fyrradag en það er liðin rúm vika síðan. Áttum góða
daga í Fljótshlíðinni um helgina með tengdó og langa afa eins og Gunnar
Mikael sagði. Trítluðum upp á Stóra Dímon, Ástvaldur reyndar skokkaði
upp og það með Gunnar á bakinu og er hann ekki sá allra fíngerðasti
þessi elska. Í framhaldinu renndum við svo upp að Seljalandsfossi og
auðvitað gengum við bakvið fossinn eins og hinir túristarnir enda
fannst Gunnari það ótrúlegt sport og auðvitað hundinum líka!!! Síðan
æfðum við bæði hundinn og litla manninn að hoppa á milli steina í ánni
sem rennur niður með sumarbústaðnum, sem var mikið sport og kraftur í
Gunnka. Ég er ekki viss um að mamma hans hefði verið mjög ánægð með
ömmuna og afann og líklega gripið andann á lofti nokkrum sinnum en
auðvitað pössuðum við vel uppá strákana.

Kjötkrókur mættur!

Berlín á næsta leyti, förum þangað eftir rúmar tvær vikur og verðum í rúma viku. Bardukha mun spila þar tvisvar sinnum sem verður örugglega gaman fyrir strákana en svo verður auðvitað tími til að gera eitthvað skemmtilegt. Ég hef aldrei komið þangað en hef heyrt að mér muni ganga illa að láta mér leiðast án þess að minnsta kosti að hafa aðeins fyrir því. Svo er hugsanlegt að þar verði gott veður þ.e. ekki él!!! Þetta er súrrealískt og ég fór nánast úr bleiku peysunni í morgun, mér brá svo þegar ég sá snjókomuna.

Annars er ég  sammála þeim sem hafa gagnrýnt auglýsinguna með Lalla Johns, þetta er ekki fallega gert þó mig gruni að hugmyndasmiðirnir hafi bara ekki hugsað þetta alla leið og ekki átt von á þeim viðbrögðum sem þetta hefur vakið en það er ljótt að nota fólk sem er of veikt til að sjá að þetta er siðlaust og í þessu tilviki hefði auglýsingastofan þurft að fá lánaða skynsemi. Ég fæ þessa sömu tilfinningu þegar ég les eða hlusta á viðtöl við fólk sem hefur gengið í gegnum miklar hremmingar og er engan vegin fært um að sjá sjálft að viðtal gerir ekkert gott og bætir engu við. Þá er það fjölmiðlafólk sem skortir skynsemi og skortir að geta sett sig í spor annarra.

Þið eruð að grínast - það er verið að hengja mann upp á kjötkrókum í sjónvarpinu og það í fjórða sinn að hans sögn. Mér verður óglatt að horfa á þetta og held að hugurinn sé nú það máttugur að ekki þurfi kjötkróka til að verða fyrir andlegri upplifun en maðurinn segir þetta þess virði og svei mér ef hann er ekki himinlifandi!

 


Það er í lagi að vera tapsár en...

Hvað er raunverulegt og hvað ekki? Það hefur runnið upp fyrir mér ljós
undanfarna viku eftir að hafa fylgst með eftirleik kosninganna. Það er
aldrei allt sem sýnist, þannig er bara lífið. Fulltrúar
Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa brosað út í bæði í mörg mörg
ár en það er ekki liðin vika frá kosningum þegar Framsóknarmenn eru
farnir að bíta frá sér, þ.e. þegar í ljós kom að þeir voru ekki inni í
myndinni lengur. Mér finnst í lagi að vera vonsvikinn (fer þó ekki ofan
af þeirri skoðun minni að mér fannst mikil mistök að Framsóknarmenn
skyldu ekki sjálfir segja strax eftir kosningar að þeir ætluðu að draga
sig í hlé eftir að hafa beðið þar afhroð) en ummæli margra þeirra
síðustu daga hafa dregið fram í dagsljósið niðurbælda gremju. Hvers
vegna í ósköpunum halda Framsóknarmenn (þeir sem hafa tjáð sig í
fjölmiðlum a.m.k.) að þeir séu þeir einu með viti og að allt fari í
tóma vitleysu ef þeir fara ekki með völdin. Þeir hljóta að treysta
samstarfsflokki sínum til margra ára-eða hvað? Þeir verða að fara að
skilja að kjósendur vilja að þeir dragi sig í hlé - og það er ekki
afleiðing aukablaðs DV...held að það kæmi þeim á óvart ef gerð væri
könnun á því hve margir lásu það blað eða fáir öllu heldur. Almenningur
hefur örugglega ekki legið yfir þessu blaði. Takið ykkur nú saman í
andlitinu og setjið málefni og markmið ofar eigin hag!

Framsókn í vörn!

Ég, eins og svo margir margir aðrir, er yfir mig hneyksluð að
Framsóknarflokkurinn skuli ekki standa við þau orð að ef fylgið myndi
hrynja þá myndu þeir taka mark á því og fara ekki í stjórn. Ný stjórn
hefur ekki verið mynduð en samt finnst mér það svik að þeir skyldu ekki
segja strax að stjórnarsamstarf væri út úr myndinni. Ég trúi því ekki
að þeir muni ekki hlusta á rödd kjósenda og halda sig til hlés. Mér
finnst bara hreint ótrúlegt að flokkur með svona lítið fylgi skuli
ávallt vera í ríkisstjórn og hvað þá ráða helmingi ráðuneyta - það er
bara ekki glóraí þessu. Ég mun ekki missa svefn yfir þessu en mér
finnst þetta bara ekki réttlátt og siðferðilega rangt.

Eitt lítið andartak...

Skyldu tilviljanir vera til - ég er á því að þær séu það ekki. Ég get ekkert rökstutt það með orðum enda nær rökhugurinn svo stutt. Stundum raðast hlutir einkennilega saman að manni finnst en svo allt í einu fer allt að tengjast saman. Ég er alltaf að átta mig betur og betur á því að það er eitt að "skilja" og að "skilja" - það er hægt að lesa og pæla heil ósköp og reyna að botna í hlutum án þess að botna neitt í neinu. Lífið kemur manni oft svo skemmtilega á óvart - stundum er það reyndar alls ekki skemmtilegt í þeim skilningi að vera gaman en á endanum verður það oft þannig ef maður nýtir reynsluna á þann hátt.
Byron Katie sem ég minntist á um daginn segir það séu ekki atburðirnir í lífi okkar sem valda okkur vanlíðan heldur sífelldar hugsanir um þá. Með auðmýkt og jákvæðu viðmóti getum við snúið kringumstæðum okkur í hag og tekið hverju og hverjum sem er, hvar og hvenær sem er, opnum örmum, segir hún jafnframt.

Það verður kosið um framtíðina á laugardaginn....heyrist stöðugt í öllum fjölmiðlum en gleymum ekki að vera
HÉR OG NÚ!


Lykilorðið er...

Heilinn á mér er að fríka út á lykilorðum. Þjónustufulltrúinn minn í
bankanum hlær að mér þegar ég hringi ringluð einu sinni enn og get ekki
munað lykilorðið á einkabankanum eða fyrirtækjabankanum eða númerið sem
ég á að setja inn þegar ég greiði reikninga. Svo hlær hún enn meir
þegar ég bið hana um að bjarga mér því ég sé búin að gleyma
aðgangsorðinu á fyrirtækjabanka félagsins sem ég gegni gjaldkerastöðu
hjá. Ég fékk nýtt aðgangsorð hjá Vildarklúbbnum í gær, í hvaða skipti
man ég ekki...svo er það aðgangsorðið hjá Intrum sem sér um innheimtu
fyrir fyrirtækið, ríkisskattstjóra fyrir staðgreiðslu, lykilorðið í
símanum og fyrirtækjasímanum...sumt er eins en þá er bara að muna hvað?
Þetta er aðeins of flókið fyrir mig og já ég hef líka lent í því að
vera í hraðbanka í útlöndum og muna ekki númerið á kreditkortinu!

Mæli með...

Kíkti á vefsíðu áðan www.thework.org sem mér fannst algjör snilld. Katie Byron nokkur hjálpar fólki að losna undan þjáningunni á einfaldan hátt eða með því að trúa ekki hugsunum okkar. Það er dálítið Zen í þessu hjá henni og það var forvitnilegt að horfa á litlu brotin á síðunni og hvernig hún höndlar hin ýmsu mál. Mæli með þessu!

Ég gef hundum líka mín meðmæli. Ég hefði aldrei trúað því fyrir nokkrum árum að ég ætti eftir að eignast hund. Ég hafði alls ekki gaman að dýrum og sá fyrir mér allt í hundahárum og óþrifnaði. Svo fannst mér hundalykt vond (reyndar er ég ekkert hrifin af henni en ég finn hana auðvitað ekki sjálf heima hjá mér). Það sem kom mér á óvart var hversu gefandi þessar elskur eru og væntumþykja þeirra og hollusta skilyrðislaus. Það er alltaf eins og hann Nói minn hafi ekki séð mig í heila öld og eigi aldrei eftir að sjá mig aftur, fagnaðarlætin eru slík þegar ég kem heim. Og hvernig er hægt annað en brosa og kætast með þeim og vera þakklátur fyrir svona móttökur. Ég er viss um að hundar geta hjálpað fólki sem á við margs konar erfiðleika að stríða og mér skilst að rannsóknir sýni að þeir geta hjálpað til við að lækka blóðþrýsting og þar með er það alveg örugglega ekki upptalið. 


Tjakkurinn!

Maður einn, sem var að ferðast úti á landi, lenti í því að það sprakk á bílnum og enginn tjakkur til staðar. Þetta var fjarri þéttbýli en í fjarska var bóndabær og ákvað maðurinn að ganga þangað og fá lánaðan tjakk. Hann lagði af stað fullur bjartsýni og vissi sem var að fólk upp til hópa er vingjarnlegt og hjálpsamt. Þegar hann var aðeins kominn af stað fylltist hann allt í einu efasemdum og hugsaði með sér að kannski byggi þarna bara fúllynt pakk sem alls ekki vildi lána honum tjakk en á eftir fylgdu hugsanir um að það væri nú bara vitleysa og rifjaði upp þetta með hjálpsemina. Svona gekk þetta hjá blessuðum manninum meðan hann gekk að sveitabænum, hann var á stundum alveg viss um að hann fengi bara óhreina tusku í andlitið en svo hugsaði hann með sér að það væri auðvitað tóm vitleysa og ímyndun. Eftir nokkuð langa leið var hann kominn á áfangastað og bankaði uppá á sveitabænum. Þegar bóndinn kom til dyra sá hann bara fjúkandi reiðan mann sem nánast öskraði á hann: "Þú getur bara átt þennan helv...tjakk þinn sjálfur"!

Hringir þetta einhverjum bjöllum?


Mík í Výrdal!

Snorri Sturluson, fjölmiðlamaður með meiru, sagði mér eftirfarandi
reynslusögu einhverntímann þegar við vorum að vinna saman á Rás 2. Hann
er að norðan og byrjaði sinn feril held ég í útvarpi þar. Þar stjórnaði
hann m.a. útsendingu þegar fréttir voru lesnar. Það var í einum
fréttatímanum að fréttamaðurinn las frétt um Vík í Mýrdal og ruglaðist
illilega og sagði Mík í Výrdal og tók ekkert eftir því. Þegar hann var
búinn að lesa fréttirnar og búið að loka fyrir hljóðnemann sagði Snorri
honum auðvitað frá mistökunum og fréttamaðurinn, sem varð alveg miður
sín, bað hann um að hleypa sér að aftur svo hann gæti leiðrétt þetta.
Hann sagði svo hlustendum frá þessum mistökum, þ.e. að í frétt um Vík í
Mýrdal hafi hann farið rangt með nafn bæjarins, baðst innilegrar
afsökunar og sagði: "Þetta á að sjálfsögðu að vera MÝK Í VÍRDAL" (vona
að þið fáið tilfinningu fyrir áhersluna á M og V).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 2833

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband