6.2.2007 | 11:44
Ég læt mig dreyma
...ævintýradrauma eins og Ellen sagði í eurovisionslagara um árið og bætti svo við: hugurinn ber mig hálfa leið. Það er einmitt það sem er í gangi núna því ég er komin hálfa leið til Ítalíu í sumarfrí. Hef lært það að það er eins gott að vera snemma á ferðinni í skipulagningu sumarfrís ef ætlunin er að fara ákveðinn stað og vilji er til að fá fargjöld á góðu verði. Það er sem sagt búið að bóka ferð til Mílanó og þaðan á að gera út í allar áttir, upp til fjalla, inn til dala...eins og segir í öðru dægurlagi. Ítölsku alparnir, ítalska rivíeran og hið frábæra svæði Cinque terre. Það er svo satt sem segir í Draumalandi Andra Snæs að hugmyndir kvikna á mörgum stöðum í einu og það upplifðum við m.a. þegar við vorum að spá í þessi svæði á Ítalíu. Stuttu síðar fóru ferðabæklingar að detta inn um lúguna þar sem boðið er upp á ferðir akkúrat á þá staði sem við ætlum að skoða í sumar, ferðir sem ekki hefur verið boðið upp á áður. Skondið!
...svo finnst mér frábært að Tinna og Gunnar (barn og barnabarn) skuli koma með. Þá viku sem þau verða er ætlunin að vera á rivíerunni í sólbaði. Uhumm, þeir sem mig þekkja vita að það verður erfitt að stilla mér upp á sólbekk, er þegar byrjuð að skoða hvort það er ekki vatnsrennibrautagarður og eitthvað í þeim dúr á þessu svæði en mér finnst alveg fáránlega gaman að leika mér á svoleiðis stað - man enn eftir angistarsvipnum á Tinnu þriggja ára í slíkum garði á Mallorca. Sáum ekki alveg fyrir fljúgandi ferðina á dekkjunum sem við flutu (flugum) á niður eina brautina í garðinu og í stað þess að njóta bununnar snérist ferðin um að komast hjá því að drekkja börnunum. Er líka viss um að ég þarf að suða talsvert til að fá Tinnu með mér í rennibrautirnar en ég veit að það þarf ekki nema eitt orð til að fá Gunnar með. Hann er reyndar fulldjarfur finnst mér en við höfum farið mikið með hann í sund og byrjuðum með hann nokkra mánuði í ungbarnasundi. Amman og afinn fóru með hann, foreldrarnir lítt hrifinir af sundlaugum og kannski hefur Tinna aldrei jafnað sig á salíbununni góðu - margt sem maður má hafa á samviskunni!!!
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 2834
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.