20.2.2007 | 18:12
Vesenisgjald
Fór í klippingu um daginn sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þetta getur verið ægilega mikið mál fyrir mig og ég vorkenni oft hárgreiðslufólkinu sem fær það verkefni að klippa mig. Þess vegna fer ég yfirleitt til sama klipparans og skipti ekki nema á margra ára fresti. Klipparinn minn er mjög ásetinn og ég panta alltaf tíma þegar ég yfirgef stofuna svo ég sé örugg með að fá tíma (þegar tíminn kemur) en ég gleymdi því síðast og svo kom allt í einu dagurinn sem ég "varð" að komast í klippingu og auðvitað ekki séns að fá tíma hjá Svavari. Svo ég ákvað að vera djörf og hoppa inn á aðra stofu, sem var ekkert endilega mikið gæfuspor - sérstaklega fyrir klipparakonuna. Ég þóttist vera mjög líbó (fannst ég vera það) og sagði að hún mætti gera það sem hún vildi en auðvitað með ákveðnum formerkjum - stuttu síðar var það þannig að hún mátti gera það sem hún vildi svo framarlega sem það væri smart að mínu mati! Og hún byrjaði að klippa og smátt og smátt byrjaði að þyngjast á mér brúnin þar til ég gat ekki orða bundist og sagði að mér fyndist eins og ég væri með hjálm á hausnum. Ég reyndi að draga andann mjög djúpt og nota alla hugleiðslutæknina sem ég hef iðkað en það dugði ekki til og ég var að missa út úr mér setningar eins og þessa og sú næsta var að mér fyndist ég kellingarleg (miðaldra konan - sjá aðra færslu). Á endanum var búið að klippa af mér nánast allt hárið og ég var samt ekki sátt. Ég held að það sé allt í lagi með klippinguna en hún var bara ekki alveg eins og ég vildi hafa hana - hún sagðist vera að gera það sem hún héldi að passaði best við andlitsfallið (ég var nú ekkert að segja henni að það tæki því ekki miðað við það sem mamma hennar Karó vinkonu sagði einu sinni, þ.e. að andlitið á mér væri svo lítið að það væri bara sýnishorn). Þó ég væri nú ekki yfir mig hrifin reyndi ég að slá á létta strengi (um leið og ég hugsaði að ég myndi aldrei fara þangað aftur) og spurði hvort þau væru með sérstakt vesenisgjald fyrir svona erfiða kúnna og þó hún hafi örugglega reytt hár sitt þegar ég var farin hló hún með mér (og vonaði að ég kæmi aldrei aftur). Þannig að nú er næsta verk að hringja og panta tíma hjá Svavari - hann er nú líka ekki mikið að velta sér upp úr því ef ég er að kvarta - bara skammar mig og segir að ég hafi ekki vit á þessu - eða um það bil!
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 2833
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég var einmitt hjá klipparanum mínum í gær. Hún heitir ekki Svavar og er ekkert þekkt held ég en hún hefur alltaf skilið mig og vitað hvað ég vildi. En....... í gær EIÐILAGÐI hún á mér hárið af því ég var svo vitlaus að segja henni að hún mætti klippa mig eins og henni fyndist að ég ætti að vera! DÖ! hvað var eiginlega að mér miðaldra kellingunni að treysta rétt þrítugri unglingsstúlku fyrir hárinu á MÉR! skiliddiggi.
En nú er ég að fara á stúfana að finna nýjan klippara; þessi hefur brugðist mér í síðustu þrjú skiptin (þó hún hafi staðið sig í 5 ár þar á undan!)
Ergo: skil þig MJÖG vel.
Laulau (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.