18.6.2007 | 22:33
Bráðhugguleg Berlín
Jæja, þá tekur blákaldur raunveruleikinn við eftir draumadaga í Berlín. Ég verð að segja að borgin kom mér á óvart, hún var miklu fallegri en ég átti von á, ódýrari og maturinn er algjör dýrð. Svo er þetta auðvitað gósenland fyrir þá sem spá í heilsusamlegt matarræði, það þarf ekki að fara í sérstakar heilsubúðir til að finna lífrænt ræktaðar vörur, hvort sem það er grænmeti eða annað góðgæti - og verðmunurinn er mikill. Við reyndar keyptum minna en ekkert grænmeti eða annað en morgunmat þar sem við borðuðum alltaf á einhverjum af þessum frábæru veitingastöðum sem finna má þarna. Við fundum t.d. ótrúlega góðan japanskan stað rétt hjá íbúðinni sem við bjuggum í og vorum veik fyrir núðlusúpunum og sushiinu þeirra og borðuðum þar nokkrum sinnum, fyrir utan víetnamskan, ítalskan, taílenskan og svo framvegis. Ætluðum að borða á indverskum eitt kvöldið en fyrir utan staðinn voru veiðimenn sem reyndu að veiða fólk inn á staðinn og sá sem reyndi að veiða okkur fékk ekki mikið á öngulinn því það var nóg til að gera okkur fráhverf og í staðinn fundum við lítinn ítalskan stað þar sem við borðuðum á okkur gat.
Við gengum mikið alla daga og skutluðumst á milli í lestunum en lestarkerfið er frábært og algjör óþarfi að eiga bíl í borginni. Skoðuðum gyðingasafnið sem er merkilegt og ekki síst byggingin sem er flott hönnuð. Gerðum tilraun til að fara í óperuna (fórum út í hléi) en fórum með Stínu mágkonu og Viffa. Ég lét tilleiðast bara til að prófa því það er sagt að maður eigi að prófa en mig hefur aldrei langað á óperu og löngunin kviknaði ekki þarna. Gátum afsakað okkur með að bakið væri slakt (Ástvaldur var hrifinn af þeirri skýringu) en stólarnir voru hryllilegir en ég hefði nú haldið það út hefði ég haft áhuga á sýningunni. Okkur leiddist báðum jafnmikið, skildum ekki orð og ekki heldur textann sem var á þýsku...en það breytir því samt ekki að flutningurinn höfðaði ekki til mín, þannig er það nú bara. Óperuhúsið var flott þannig að þetta var ekki sneypuför og gaman að hafa komið þangað. Skemmti mér betur í dýragarðinum en fannst reyndar dálítið erfitt að horfa á dýrin húka á sínum afmörkuðu svæðum, hundleiddist örugglega greyjunum. Jæja nenni ekki meir enda enn á þýskum tíma og komið vel yfir miðnætti.
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 2831
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.