2.10.2007 | 09:10
Það er þá aldrei...
Þetta hefur verið ansi gott bloggfrí en það er reyndar eina fríið sem í boði hefur verið síðan í júlí. Þetta hefur verið mikil törn að koma skólanum af stað en nú eru allt komið á fullt og nemendur okkar, sem eru yfir 200, spila af fingrum fram á píanó og gítar. Stundum er ég alveg að gefast upp þegar ég sit yfir stundatöflunni og reyni að púsla öllu saman (sérstaklega þegar þeir sem hafa látið hafa mest fyrir sér hætta við en það er yfirleitt reglan að þeir sem sækja um síðastir og geta bara mætt akkúrat á þessum tíma bakka út og finnst ekkert sjálfsagðara). Kannski áttar fólk sig ekki á hvað það er gífurlega mikil vinna að koma þessu saman, vona að það sé ástæðan frekar en hrein ókurteisi eða tillitsleysi. EN það er svo skrítið að hlutirnir hafa tilhneigingu til að leysast og þess vegna er léttirinn mikill þegar allt byrjar að ganga sinn vanagang rétt eins og þetta hafi alltaf verið svona! Reyndar vaknaði ég einn morguninn mjög reytt (ekki bókstaflega) og búin á því og var alveg með það á hreinu að ég hefði aldrei ætlað að reka tónlistarskóla, það væri draumur annars manns (sem reyndar hefði ræst og ég hjálpað til við það) og ég var svo pirruð að ég skráði mig í B.A. ritgerð og gekk svo langt að tala við Þorbjörn Brodda og biðja hann um að vera leiðbeinandinn minn. Það var reyndar ferlega gaman að hitta hann aftur, okkur reiknaðist það til að það væru líklega meira en 15 ár síðan síðast sem sagði mér að ég væri heppin að geta yfirleitt klárað þessa blessuðu ritgerð. Þetta er nú líklega ein lengsta fæðing sem um getur á B.A. prófi og ferillinn minn í háskólanum minnti mig óþyrmilega á óákveðni mína um hvað ég hefði hugsað mér að verða þegar ég yrði stór (veit það ekki enn). Fyrir utan að ég hóf námið 1984 (sama ár og Tinna mín fæddist) þá byrjaði ég í félagsráðgjöf, skipti stuttu síðar yfir í uppeldisfræði og þaðan yfir í félagsfræði og útskrifast með 60 einingar í félagsfræði og 30 einingar í fjölmiðlafræði. Þetta er dáltið týpískt fyrir mig, vil gera allt og kynnast sem flestu en er samt í eðli mínu frekar íhaldssöm og Ástvaldur segir mig KR - ing, þ.e. ég geti verið ansi svört og hvít í skoðunum mínum meðan mér finnst ég bara vita hvað ég vil!
Jæja, búin að stimpla mig aðeins inn og þá er ekkert annað en að leggjast í heimildavinnu fyrir ritgerðina (búin að borga skólagjöldin en svo langt hef ég ekki gengið áður í pælingunni um að klára prófið).
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 2831
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.