2.12.2007 | 21:00
Hláturinn lengir lífið!
Stend mig að því að skellihlæja að Næturvaktinni. Ég komst varla í gegnum fyrsta þáttinn þar sem týpa Jóns Gnarr fór svo hrikalega í taugarnar á mér. Horfði þess vegna ekki á næstu þætti en datt inn í þetta aftur og finnst þeir mjög fyndnir.
Að öðrum þætti, Útsvari - hef líka lúmskt gaman að honum þó ég sjái hann nú ekki oft. Fannst sértaklega skemmtilegt að sjá Gurrí sl. föstudagskvöld. Gurrí hefur góðan húmor finnst mér, hún var nú ekkert að flíka honum í þessum þætti en hárbeittur húmorinn og stundum kolsvartur fellur mér vel í geð. Og talandi um spurningaþátt - einu sinni fékk ég Gurrí í slíkan þátt á Rás 2, man ekkert við hvern hún var að keppa eða mikið meira um þáttinn en hann var sem betur fer tekinn upp því hann fór í algjöra vitleysu sem skrifast algjörlega á mig. Við vorum rétt að byrja og ég var að útskýra reglurnar og ruglaðist svona illilega. Í stað þess að segja að það væri betra að reyna að skjóta á svarið en þegja þá sagði ég að það væri betra að skjóta sig...dálítið dramatískt en fékk sjálf svo mikið hláturskast (sem var reyndar frekar algengt á þessum árum) að það var ekki upptökuhæft í töluverðan tíma. Ég sakna útvarpsins stundum og hversu spontant miðillinn er - það getur allt gerst! Held að ég hafi bara einu sinni verið skömmuð fyrir fíflaskap en það var þegar við Magga Blö vorum með þátt saman að kvöldi til, held að hann hafi heitið Allt í góðu. Eitt kvöldið vorum við að byrja þáttinn og vorum ekkert í neinu fíflastuði en eitthvað gerðist í kynningu þáttarins og við fengum hláturskast og enduðum á því að loka bara fyrir míkrafónana og setja lag á. Reyndum svo að stramma okkur af og byrja aftur en það var eins og við manninn mælt, við fengum annað kast. Okkur fannst það hreinlega ekkert fyndið og var alveg lokið þegar þetta gerðist í þriðja skiptið. Held að við höfum leyst það þannig að önnur fór út á meðan andrúmsloftið róaðist. Sigurður G. eða Bubbi eins og hann var nú alltaf kallaður skammaði okkur aðeins daginn eftir. Þó þetta hafi nú ekki verið við hæfi og alls ekki ætlunin þá er nú fátt betra en gott hláturskast.
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 16
- Frá upphafi: 2831
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.