4.10.2006 | 15:25
Hamingjudagur
Það verður gaman að sjá hversu dugleg ég verð að blogga - hef margreynt að halda dagbók og fer alltaf mjög vel af stað en svo fer færslunum að fækka eftir vikuna. Það er hægt að læra margt um sjálfan sig með því að að vera meðvitaður um hvað maður gerir (ekki bara hvað maður segir). Ég hef t.d. lært að ég er meiri spretthlaupari en langhlaupari, þ.e. ég tek á sprett en ef hlaupið er of langt á ég til að þreytast á leiðinni og gefast upp og snúa mér að öðru. Zen hugleiðslan sem ég hef stundað sl. sex ár hefur hjálpað mikið við að auka þolið. Það hefðu fáir sem þekkja mig trúað því að ég gæti setið hreyfingarlaus og þagað í 30-40 mínútur í einu og á stundum nokkrum sinnum á dag í marga daga og kannski síst ég. Enda var það hrikalega erfitt í byrjun og er það auðvitað stundum enn en það er eitthvað sem knýr mig áfram - veit ekki hvað það er og reyni að pæla ekki of mikið í því. Annars er þetta mikill gleðidagur fyrir Zen á Íslandi því eftir klukkustund mun ég ásamt fleirum í stjórninni mæta á fasteignasölu og skrifa undir kaupsamning fyrir hönd hópsins. TIL HAMINGJU segi ég því þetta er í fyrsta skipti í nánast 20 ára sögu hópsins sem hann verður í síns eigins húsnæði. Húsnæðið er að Grensásvegi 8 og er hinn besti setusalur (zendo uppá japönsku) og ég trúi því að þetta muni efla iðkun zen hugleiðslu.
Ég mætti í mína fyrstu hugleiðslu árið 1999 - fékk að fara með mínum heittelskaða sem hafði iðkað zen í nokkur ár. Það get ég sagt að ég bað ekki um að fara með aftur í bráð. Ég var gjörsamlega að fríka út í þögninni og í stað þess að einbeita mér að andardrættinum eins og mér hafði verið leiðbeint með var ég í fullri vinnu við að hneykslast á því fólki sem eyddi dýrmætum tíma sínum í aðra eins vitleysu og hugsaði hvað ég gæti annars verið búin að gera á þessum tíma sem ég sat og kvaldist þarna. Það er rétt að ég hefði svo sem getað verið búin að gera ýmislegt en líklegast hefði ég setið yfir einhverju lítt gefandi sjónvarpsefni eins og ég gerði nú gjarnan og á til enn. Gott í bili - ætla að drífa mig að skrifa undir kaupsamninginn.
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.