31.10.2006 | 21:36
Líkami, sál og hugur
Skelltum okkur í sjöbíó (eins og maður gerði í gamla daga) og sáum Mýrina. Hún minnti mig reyndar á gamla daga þegar kjötsúpa og sviðakjammar voru oftar á borðum landsmanna. Fannst eins og hún hefði gerst 1970 en ekki að verið væri að vísa í atburði sem gerðust þá. Ég er nú orðin 43 ára og hef aldrei eldað svið eða kjötsúpu og ég er viss um að það sama á við um vinkonur mínar - hvað þá að dóttir mín kunni það (er á svipuðum aldri og Eva er í myndinni). Myndin var annars ágætis afþreying en mér leiðist dáldið þessi drungi sem einkennir íslenskar myndir og mér fannst einkenna Mýrina líka - það er kannski ekkert skrítið að helmingur landsmanna sé á þunglyndislyfjum, þ.e. ef þetta er lýsandi fyrir þann raunveruleika sem við búum við. Held reyndar ekki en það er annað mál.
Var bent á nýja heimasíðu í dag www.heilsubankinn.is þar sem fjallað er um óhefðbundnar aðferðir til lækninga og mæli ég eindregið með henni fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þær frekar. Ég hef sjálf mikinn áhuga á "holistic health" eins og sagt er upp á enskuna og ef ég druslast til að klára B.A. ritgerðina mína í náinni framtíð er ég mikið að spá í M.A. í holistic health. Veit af góðum háskóla í San Francisco - verst að það á víst að hætta með beina flugið sem hefur nýst mér vel hingað til. Ég hef sjálf prófað ýmsar óhefðbundnar aðferðir í gegnum tíðina og margar með góðum árangri en allt snýst þetta fyrst og fremst um að bera ábyrgð á eigin heilsu og að muna að um er að ræða sál, líkama og hug og ekki hægt að aðskilja líkamann frá hinu eins og vestræn læknisfræði gerir gjarnan. Og til að geta tekið ábyrgð verðum við að vera meðvituð um það hvað við gerum og hvernig frá andartaki til andartaks og þar finnst mér hugleiðslan hafa hjálpað mikið ef ekki mest. Það er bara ekki hægt annað en segja hallelújah á eftir svona ræðu og hana nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2006 | 21:22
Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir!
Mikill veisludagur í dag. Byrjuðum í bröns hjá Inger og Andra sem var gaman því við hittumst alltof sjaldan. Vorum líka að taka út hundinn þeirra, Bichon Frise, sem var mjög krúttlegur. Ég er búin að snúast í marga hringi í þessum hundamálum, Ástvaldi til mikillar mæðu, því ég var búin að sannfæra hann um hvernig hundategund hentaði okkur best og svo er ég auðvitað búin að skipta um skoðun. Skoðuðum Border Terrier í gær og leist líka vel á þá en ég held að þetta sé heljarinnar prósess og við þurfum bara að taka okkar tíma í þetta.
Eftir brönsinn lá leiðin í gamla pósthúsið í Hafnarfirði þar sem Ástvaldur var að spila fyrir fyrrverandi sambýlismann minn og barnsföður sem er í prófkjöri Samfylkingar og ætlar sér ekkert minna en fyrsta sætið. Þar hitti ég helling af gömlum vinum, sem ég hitti suma sjaldan og það var notalegt að rekast á þá þarna. Sumum finnst fyndið að núverandi eiginmaður spili tónlist fyrir fyrrverandi en sem betur fer hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að öll dýrin í skóginum eru vinir og okkur kemur vel saman og tökum gjarnan höndum saman þegar hlutirnir snúa að Tinnu eða barnabarninu Gunnari. Það er ekki flóknara en það að gott fólk er einfaldlega gott fólk! Þess vegna óska ég Gunna góðs gengis, það eina sem ég hef á móti þessu er að mér finnst hann helst til of góður til að lenda í ljónagryfjunni á Alþingi. Veit ekki hversu vel sú vinna fer með sálina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2006 | 15:04
Farin í hundana
hvuttar.net og öðrum hundasíðum og erum að fara að skoða hunda í kvöld.
Þetta er nú bara fyndið þar sem ég hef nú aldrei verið sérstaklega
þekkt sem mikill dýravinur og hef þaggað niður í fóstursonunum þegar
þeir hafa spurt hvort við ætluðum ekki að fá okkur hund. Ég veit ekki
hvað gerðist sem olli þessum straumhvörfum og síðasta vígið er nú
fallið því Tinna er farin að ýta á okkur og segir að það þýði ekki að
tala bara um hlutina. Við erum að tala um mæðgurnar sem misstu sig
þegar köttur skreið inn um gluggann og mjálmuðu eins og móðursjúkir
kettlingar. Einhvern tímann fyrir margt löngu, Tinna hefur verið svona
átta ára, var ég hálfsofandi og barnið byrjar að ýta í mig og segja að
það sé köttur inni hjá okkur. "Æ, láttu ekki svona" sagði ég og öskraði
í sama mund þegar kattartrýni gægðist inn um svefnherbergisdyrnar.
Upphófst þá mikill eltingaleikur sem gekk auðvitað út á að koma
kettinum út. Við skíthræddar en kötturinn örugglega helmingi hræddari
en við tvær til samans. Loksins tókst okkur að koma honum fram á
stigagang með því að setja mjólkurskál fyrir framan dyrnar. Sagan er
ekki alveg búin þar sem það sem það eina sem okkur vantaði í
morgunsárið var nýbakað brauð og bakaríið við hliðina á okkur. Byrjaði
mamman þá að reyna að senda barnið út í bakarí en barnið vildi ekki
fara þar sem kötturinn var í stigaganginum. Ósvífna móðirin fussaði
yfir þessu og sagði að það væri engin ástæða til að óttast kattargreyið
og þar að auki væri hann nú mjög líklega farinn. Mamman
þorði hins vegar ekki fyrir sitt litla líf að flækjast þarna um sjálf
heldur ætlaði bara að vera tilbúin til að skella hurðinni á eftir
barninu og búa til litla rifu svo það kæmist inn með ilmandi heitt
brauðið. Sú litla hefur nú alltaf verið vel greind og skaut föstum
skotum á mig og sagði mér að það væri nú ekki sanngjarnt að ætla að
senda hana út í opinn dauðann og fylgjast sjálf með bakvið luktar dyr.
Mig minnir nú samt að hún hafi farið út í bakarí, kannski hef ég farið
í hetjuskóna og fylgt henni að útidyrunum (sem voru beint fyrir framan
nefið á okkur) og tekið á móti henni (hennar útgáfa er kannski
önnur en við erum ekkert að spyrja um hana). En öldin er sem sagt önnur
og þar sem ég hef nú sjaldan verið þekkt fyrir að láta hluti bíða (nema
b.a. ritgerðina) er líklegt að hundur verði kominn í hús fyrir jól.
Gunnar litli er mjög glaður þegar talað er um hund en hann er svo vel
áttaður að hann vill frekar gröfu en hund.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2006 | 10:15
Í bítið...eða ekki!
loforð mitt um að byrja á blessaðri b.a. ritgerðinni...bíðum samt og
sjáum því klukkan er bara 10.07. Ætlaði að sitja klukkan sjö í morgun
en var fljót að slökkva á vekjaraklukkunni og passaði mig vel á að
setja hana ekki á "blunda". Tinna ætlaði að koma með Gunnar kl. 7.30 en
svaf líka yfir sig því hún var enn betri en ég og stillti alls ekki
vekjaraklukkuna - efnileg fjölskylda! Drattaðist á fætur eftir lestur
Fréttablaðsins og gerði hafragraut handa mér og Gunnari. Hann var súr
yfir að mamma hans fengi enga skál en ég var nú ekki að reyna að
útskýra fyrir honum að hún væri svo mikill gikkur að hún vildi ekki sjá
grautinn, þannig að honum finnst ég örugglega frekar fúl amma sem
neitar að gefa barninu sínu graut. Þannig að nú er það kaffibollinn með
þeyttu vanillusojamjólkinni (mæli með því) og kannski smá vinna á
eftir. Hlakka svo til að halda áfram að lesa bókina sem á hug minn
allan núna. Hún heitir Flugdrekahlauparinn og er góð, hef ekki lesið
svona góða bók síðan um síðustu jól þegar ég las Skugga vindsins sem er
með skemmtilegri bókum sem ég hef lesið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 00:52
Löng fæðing
að þetta verði helgin sem ég næ að slaka dáldið vel á en ó skjátlast
mér heldur betur enn og aftur. Segi nú reyndar ekki að verkefnin séu
beint leiðinleg en síðasta sólarhring var ég að passa Gunnka minn þ.e.
barnabarnið Gunnar Mikael því mamma litla var í prófi í morgun. Litla
skottið mitt hefur hafið nám í lögfræði við H.Í. móður sinni til
mikillar undrunar þar sem ég misreiknaði áhugasviðið hrapallega (hélt
hún myndi fara í sálfræði). Mér finnst svo stutt síðan hún var á sama
aldri og Gunnar, sem verður þriggja í nóvember. Hún sló mér illilega
við því ég var búin að skora á hana að klára stúdentsprófið sitt um
leið og ég myndi skila B.A. ritgerðinni minni í félagsfræði. Ritgerðin
er enn óskrifuð (en auðvitað alltaf á leiðinni) en Tinna hins vegar
stakk mig af. Vonandi verður hún ekki eins lengi með lögfræðina og ég
með félagsfræðina en ég byrjaði í háskólanum 6 mánuðum eftir að hún
fæddist eða í september 1984. Eftir tveggja ára nám tók ég mér nokkurra
ára frí og síðan aftur nokkurra ára frí en þá kláraði ég allt nema
ritgerðina sem er alltaf á leiðinni. Reyndar hafði ég lofað mér að ég
byrjaði ekki á nýju verkefni fyrr en hún væri frá og því spurning um að
drífa þetta af. Ég ætla að skrifa um Zen hugleiðslu (búddisma) og mun
byrja á mánudag! Ætla að nota morgnana og vera svo framkvæmdastjóri
Tónheima eftir hádegi, milli þess sem ég fer í ræktina, fer með Gunnar
í leikskólann, sæki hann í leikskólann, passa hann því hann er veikur
og ég hef sveigjanlegan vinnutíma afþví ég vinn hjá sjálfri mér
o.s.frv. Er ekki lífið yndislegt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2006 | 11:29
Breytingarnar byrja heima!
þau voru að tala um fjölskylduna og ekki síst samveru með börnunum. Þau
sögðust reikna dæmið þannig að það væri spurning um hversu lítið þau
gætu unnið til að lifa af og þá með tilliti til þess hve miklum tíma
þau gætu eytt með börnunum sínum. Mér fannst þetta góð umræða og við
þurfum svo sannarlega öll að byrja heima hjá okkur svo viðhorfsbreyting
eigi sér stað. Það er ekki eðlilegt að stofnanir sjái um uppeldið á
börnunum okkar og það sé orðið svo slæmt að við firrum okkur ábyrgð sem
foreldrar á t.d. agaleysi og ýmis konar vanlíðan sem virðist hrjá börn
í dag - hvað er t.d. málið með að smábörn, rétt farin að tala, tjái sig
um það að þau vilji ekki lifa! Ég last þetta í grein í mogganum um
daginn en þar var fjallað um kvíða og þunglyndi barna sem er orðið ansi
stórt vandamál. Við erum að elta skottið á sjálfum okkur, teljum okkur
trú um að auknar tekjur færi okkur meiri lífsgæði...það er alveg rétt
að peningar geta hjálpað til en þeir geta svo sannarlega líka flækst
fyrir eins og máltækið "margur verður af aurum api" sannar. Það kemur
ekkert í staðinn fyrir góð tengsl manna á milli því við fæðumst nakin
og munum ekki taka bankabókina, húsið eða neinar merkjavörur með okkur
í hinsta ferðalagið. Hins vegar getum við skilað af okkur "betri
þjóðfélagsþegnum" ef við erum til staðar (hér og nú), veitum þeim
athygli en sýnum þeim líka hvar mörkin liggja þ.e. byggjum þau upp og
þorum líka að segja nei (afþví við höfum ekkert samviskubit yfir hversu
lítið við sjáum af þeim og erum ekki uppgefin eftir mikið vinnuálag).
Þetta er samfélagslegt vandamál en við verðum að byrja heima og ég mæli
með aðferð Evu og Óskars.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2006 | 15:48
Gjörhygli
Þá er sesshin í Skálholti lokið en það var ótrúlega öflugt þó stutt væri. Mér fannst hugurinn rétt vera að byrja að þreytast þegar slegið var í bjölluna í síðasta sinn en ég náði þó að finna fyrir hvað ég er búin að vera á miklum hraða sl. mánuð. Þetta var dálítið eins og að ganga á vegg eftir alla þessa keyrslu við að koma skólanum aftur í gang. Mér finnst ég svo heppin að hafa komist í kynni við zen hugleiðslu; að hafa fengið tækifæri á að horfast í augu við sjálfa mig, bæði galla mína og kosti og hafa möguleika á að laga og betrumbæta og ekki síst taka ábyrgð á eigin gjörðum. Það var svo sem stundum gott að geta skellt skuldinni á aðra en það kostaði oft ansi mikla fyrirhöfn, ég tala nú ekki um þegar fólk gat verið með tóm leiðindi og alls ekki tilbúið að taka á sig sökina.
Þegar ég kom heim í gær settist ég niður með sunnudagsmoggann og rakst á ansi skemmtilega grein þar sem segir að hugræn meðferð byggð á aldagamalli hugleiðslutækni sé að ryðja sér til rúms í meðferð gegn þunglyndi, kvíða og vanliðan. Þessi aðferð nefnist gjörhygli eða mindfulness og felur í sér vakandi athygli, að vera sér meðvitaður um það sem er að gerast hér og nú. Mér fannst þetta alveg frábært þar sem þetta er það sem zen snýst um, vakandi huga. Það krefst iðkunar að einbeita sér fullkomlega að því sem þú ert að gera til þess verður að "leiða hugann" alltaf aftur að andardrættinum, frá hinum oft og tíðum órólegu hugsunum eða hugsanakeðju sem oftar en ekki framleiðir sömu hugsanirnar aftur og aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 10:02
Sesshin
Skálholt í dag og verð fram á sunnudag. Zen hópurinn hefur fengið inni
í Skálholtsbúðum tvisvar á ári í nokkur ár fyrir "sesshin" sem má kalla
hugleiðsludaga. Hér á Íslandi sitjum við í 4 daga en venjulega eru
þetta 7 daga sesshin og var ég á einu slíku í ágúst á Sonoma fjalli í
Kaliforníu - www.smzc.net - Við vorum reyndar í heilan mánuð þar
hjónin á Ango sem er mánaðarprógramm. Algjört dúndur. Það er samt
svo skrítið að það getur verið jafn erfitt að sitja einn dag eins og
sjö. Viku sesshin er ekki endilega erfiðara en fjögurra daga - þetta er
svo huglægt og sannar hvað hugurinn er gríðarlegt afl. Það er einhvern
veginn þannig að þegar um viku er að ræða þá er svo langt í lokin þegar
lagt er af stað og því auðvelt fyrstu dagana þó auðvitað sé þetta
einstaklingsbundið. Hins vegar ef um er að ræða fjóra daga, þá er
endirinn strax nærri og hugurinn byrjaður að hugsa um lokin miklu fyrr
- þetta er mín upplifun og svo er þetta misjafnt eftir því hvernig
liggur á mér. Ég hef reynt að sleppa inn í þetta og pæla sem minnst í
þessu heldur bara að taka þetta eins og það kemur, þ.e vera í
andartakinu og það hefur bara gengið nokkuð vel. Þannig legg ég af stað
nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2006 | 15:25
Hamingjudagur
Það verður gaman að sjá hversu dugleg ég verð að blogga - hef margreynt að halda dagbók og fer alltaf mjög vel af stað en svo fer færslunum að fækka eftir vikuna. Það er hægt að læra margt um sjálfan sig með því að að vera meðvitaður um hvað maður gerir (ekki bara hvað maður segir). Ég hef t.d. lært að ég er meiri spretthlaupari en langhlaupari, þ.e. ég tek á sprett en ef hlaupið er of langt á ég til að þreytast á leiðinni og gefast upp og snúa mér að öðru. Zen hugleiðslan sem ég hef stundað sl. sex ár hefur hjálpað mikið við að auka þolið. Það hefðu fáir sem þekkja mig trúað því að ég gæti setið hreyfingarlaus og þagað í 30-40 mínútur í einu og á stundum nokkrum sinnum á dag í marga daga og kannski síst ég. Enda var það hrikalega erfitt í byrjun og er það auðvitað stundum enn en það er eitthvað sem knýr mig áfram - veit ekki hvað það er og reyni að pæla ekki of mikið í því. Annars er þetta mikill gleðidagur fyrir Zen á Íslandi því eftir klukkustund mun ég ásamt fleirum í stjórninni mæta á fasteignasölu og skrifa undir kaupsamning fyrir hönd hópsins. TIL HAMINGJU segi ég því þetta er í fyrsta skipti í nánast 20 ára sögu hópsins sem hann verður í síns eigins húsnæði. Húsnæðið er að Grensásvegi 8 og er hinn besti setusalur (zendo uppá japönsku) og ég trúi því að þetta muni efla iðkun zen hugleiðslu.
Ég mætti í mína fyrstu hugleiðslu árið 1999 - fékk að fara með mínum heittelskaða sem hafði iðkað zen í nokkur ár. Það get ég sagt að ég bað ekki um að fara með aftur í bráð. Ég var gjörsamlega að fríka út í þögninni og í stað þess að einbeita mér að andardrættinum eins og mér hafði verið leiðbeint með var ég í fullri vinnu við að hneykslast á því fólki sem eyddi dýrmætum tíma sínum í aðra eins vitleysu og hugsaði hvað ég gæti annars verið búin að gera á þessum tíma sem ég sat og kvaldist þarna. Það er rétt að ég hefði svo sem getað verið búin að gera ýmislegt en líklegast hefði ég setið yfir einhverju lítt gefandi sjónvarpsefni eins og ég gerði nú gjarnan og á til enn. Gott í bili - ætla að drífa mig að skrifa undir kaupsamninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 22:44
Hugleiðsla
Jæja, þá er tónlistarskólinn okkar, Tónheimar, farinn að rúlla en síðustu fjórar vikur hafa verið ansi töff! Við tefldum á tæpasta vað með því að koma ekki heim fyrr en tveimur vikum áður en skólinn hófst en eins og ævinlega þá hafa hlutirnir tilhneigingu til að leysast og við erum ótrúlega glöð með þann fjölda fólks sem hefur áhuga á að læra að spila á píanó eftir eyranu. Mánaðardvölin á Sonoma fjalli skilaði okkur í góðu standi heim og ég fattaði það nokkrum dögum eftir að ég kom heim að öll mín vöðvabólga var á bak og burt enda er þessi staður undursamlegur. Ég neita því ekki að þótt margir haldi að það sé auðvelt að stunda zen hugleiðslu ( í stuttu máli að sitja, þegja og fylgjast með andardrættinum) þá tekur það nú á og þá sérstaklega að vakna nánast um miðja nótt eða kl. 4.30. Það er samt svo skrítið að þegar líða fer að lokum tímabilsins og biðin eftir að þessu ljúki orðin löng, þá kom sú tilfinning yfir mig þegar Ango var lokið að ég væri tilbúin til að gera þetta strax aftur. Svona svipað og þegar konur eignast barn og eru þegar barnið er fætt tilbúnar í annað. Ég er líklega undantekningin sem sannar regluna - sagði í fæðingu Tinnu fyrir rúmum 22 árum að ég ætlaði ekki að gera þetta aftur og einhver hefur tekið mig á orðinu (líklega ég sjálf).
Nú hefst hins vegar næsta verkefni því Zen kennarinn okkar, Kwong roshi, er á leiðinni til landsins og við munum fara út úr bænum og stunda hugleiðslu í nokkra daga. Hann er alveg ótrúlegur þessi yndislegi maður, hefur komið hingað árlega í bráðum 20 ár og iðkað með okkur. Við ætlum að bjóða upp á námskeið í hugleiðslu þar sem hann mun m.a. tala um zen iðkun en hann byrjaði sjálfur að stunda zen hugleiðslu fyrir fjörtíu og fimm árum og hefur sl. 37 ár rekið ásamt eiginkonu sinni, Shinko, zen setur á Sonoma fjalli í Kaliforníu - bara unaðslegur staður þrátt fyrir að ég eigi stundum erfitt með að stíga niður fæti af ótta mínum við eiturslöngur og viðlíka skepnur sem samt eru ekki beint að reyna að troða manni um tær þarna. Hins vegar ganga kalkúnarnir um eins og þeir eigi svæðið en bambarnir eru örlítið hógværari þegar þeir spígspora um svæðið. Við erum sem sagt zen hópurinn á fullu að undirbúa það sem við köllum sesshin (hugleiðsludagar) sem verður í Skálholti í næstu viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 2834
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar