Færsluflokkur: Bloggar

Lagst í dvala...smá

Lagðist í dvala eftir flutningana. Það var hreinlega eins og ég hefði lent undir valtara...og varð að klessu, oj bara! Nú er ég að vakna aftur til lífsins en fer hægt af stað. Þessi blessaða ritgerð gengur nú ekkert sérlega vel en ég er í gamla fasanum, finn mér margt annað til dundurs (ekki það að ég er auðvitað í vinnu líka) en fyrir utan hana þá reyni ég að finna margar undankomuleiðir áður en ég druslast til að setjast við tölvuna og vinna að ritgerðinni. Verð t.d. alveg ótrúlega syfjuð bara við tilhugsunina að vinna í henni (þetta var alltaf svona í gamla daga). En ég man líka eftir þessu vinnulagi þegar ég var að skrifa greinar, fréttir eða ritgerðir. Ég frestaði því og frestaði að setjast niður og skrifa en svo þegar ég kom mér loks að verki var eins og ég væri búin að móta þetta allt í hausnum á mér og ég þurfti ekki að hafa svo mikið fyrir því að skrifa - vonandi er bara það sama í gangi núna (annars verð ég að játa á mig leti og það geri ég nú ekki svo glatt)!

Eitt af því sem ég hef fundið mér að gera er að sækja námskeið - sl. tvo sunnudaga hef ég verið á námskeiði hjá Chris nokkrum sem býr í San Diego og er kínverskur læknir. Hann er að kenna okkur aðferð við að teygja á líkamanum og búa til gott flæði um orkubrautirnar. Þetta er dáldið merkilegt, aðferðin heitir e-centric strength og ég kann svo sem ekki að lýsa henni miklu betur en þetta hefur ýtt við einhverju hjá mér. Ég var reyndar búin að taka af mér loforð um að fara ekki á námskeið fyrr en ég væri búin með ritgerðina en ég sveik það...og sé reyndar ekki eftir því, alltaf gaman að kynnast einhverju nýju og auðvitað að hitta nýtt fólk.

Við finnum dálítið vel fyrir veðrinu á þessum slóðum, engin hús til að taka af mesta vindinn eða skógur þannig að stundum fer nú um mig og ég er ekki alltaf viss um að þakið verði á húsinu þegar ég vakna en rokið hefur verið ansi mikið undanfarið. Maður þarf ekki að fara langt til að vera í svona nánum tengslum við náttúruna og finna vel fyrir henni!

 

 


Góður endir...

Þá er ég flutt í sveitina (sveit í borg) en við skiluðum af okkur húsinu í Hafnarfirðinum í gær og verðum umvafin Heiðmörkinni næstu þrjá mánuði. Umhverfið er dásamlegt og ég hlakka til að fara í gönguferðir hér þ.e. þegar veðrinu slotar. Fékk nasaþef af því í gærkvöldi hvernig íslensk veðrátta getur leikið mann grátt. Hleyptum hundunum út að pissa fyrir svefninn og þegar ég kallaði á þá skömmu síðar gerðist nákvæmlega ekkert. Eftir nokkur árangurslaus hróp og köll var ekki um annað að ræða en að fara út og leita...í svartamyrkri, brjáluðu roki og grenjandi rigningu. Við hjónin æddum um flautandi og öskrandi en ekki bólaði á hundunum. Hugsanirnar sem flugu um kollinn á þessari stundu báru ekki vott um mikla bjartsýni, því það sást ekkert til þeirra en Nói svarar alltaf kalli og Píla hefur fylgt í kjölfarið - hún var að koma til okkar í gær í pössun. Það var því ekki nóg með að hafa týnt eigin hundi heldur líka annarra manna hundi. Píla þekkir reyndar umhverfið því hún hefur verið hér en Nói var að koma hingaði í fyrsta skipti fyrir tveimur dögum. Hann hefur ekki vikið frá húsinu einn en þau voru að fara út í fyrsta skipti saman og hafa greinilega ákveðið að það væri í lagi að spássera aðeins um fyrir svefninn. Eftir dúk og disk birtist Píla en ekkert bólaði á Nóa litla. Þá leist okkur ekki á blikuna og vorum viss um að hann hefði dottið í vatnið og ekki komist upp úr. Við héldum þó áfram að hlaupa um svæðið og sáum varla út úr augum því slagveðrið var þvílíkt. Ég ákvað svo að hlaupa heim að húsi og keyra upp á veg til að athuga hvort hann hefði hlaupið í átt að ljósinu frá veginum. í því að ég kom að húsinu birtist ekki litla skinnið rennandi blautur og hríðskjálfandi og heldur álútur. Þvílíkur léttir og sem betur fer fór þetta vel en það er víst að ekki verður boðið upp á fleiri göngutúra fyrir svefninn fyrir þessi tvö!

Mæli með...

Var að tala um það um daginn hversu falleg Berlín væri, sem og hún er en núna er ég alveg dolfallinn yfir fegurðar annarrar borgar, Stokkhólms. Var að koma þaðan í gær og vá hvað hún er falleg svo ég tali nú ekki um hreinleikann! Byggingarnar, hvernig hverfin skiptast o.s.frv. Gátum endalaust gengið um Gamla Stan, auðvitað með reglulegu stoppi á einhverju góðu kaffihúsi eða matsölustað. Áttum ekki von á svo miklum fjölbreytileika í matargerð en náðum að borða uppáhaldið, þ.e. taílenskt og japanskt - eru með topp sushi staði! Komst líka að því að ég gæti vel lifað með því að eiga sauna en það var nú eitt það besta við hótelið sem við bjuggum á. Bjuggum um borð í skipi sem er innréttað sem hótel, fannst þetta krúttleg hugmynd og í sjálfu sér var þetta í góðu en herbergin (káeturnar) voru MJÖG lítil. Þurftum að smeygja okkur framhjá hvort öðru og eins gott að við vorum bara með eina ferðatösku! Hugmyndin var betri en raunveruleikinn en það var samt mjög notalegt að borða morgunverð og horfa út á hafið! 

Allt að verða vitlaust!

Jæja, þá er ég loksins búin að ákveða efni B.A. ritgerðarinnar - Þróun AA með félagsfræðilegu tvisti. Hitti leiðbeinandann í dag sem hjálpaði mér að þrengja efnið. Svo nú er bara að bretta upp ermarnar og leggja til atlögu, svona milli þess sem ég flyt og fer til Svíþjóðar...þetta breytist held ég aldrei, það verður alltaf mikið að gera. Já og svo þurfum við akkúrat að skila bílnum sem við erum með á rekstrarleigu um mánaðamótin þannig að við þurfum líka að finna annan bíl! Þetta verður allt í góðu, þarf bara að vinna dáldið hratt þar sem við ætlum að vera í Barcelona um jólin og skreppa aðeins til Berlínar upp úr áramótum með hljómsveit Ástvaldar, Bardukha. Mæli með þessum borgum - maturinn í Berlín er frábær og úrvalið ótrúlegt. Nú er ég sem sagt komin langt framúr mér...þarf að vera hér og nú!

Er að verða búin að pakka - er með gamla plusssófasettið frá mömmu og pabba sem ég ætla að láta frá mér. Þetta er sófasett sem ég man eftir frá því ég var lítil og er örugglega frá fyrri hluta síðustu aldar - ótrúleg ending, búið að yfirdekkja einu sinni en alveg heilt og lítur ótrúlega vel út. Ef einhver sem les þetta er að leita að slíku setti, endilega hafið samband við mig! Já og reyndar erum við með borðstofuborð frá tengdapabba - olíuborin eik, kringlótt (með tveimur stækkunum) og rúmar 12 manns í fullri stærð, sem við ætlum líka að láta frá okkur. Ég þakka þessum hlutum fyrir samfylgdina og vona innilega að einhver vilji njóta þeirra!


Hvað býður lífið uppá í dag?

Maður bregður sér úr bænum og það er ekki að spyrja að því - komin ný borgarstjórn þegar mætt er á svæðið aftur. Óskaplega er ég glöð að hafa misst af þessu öllu saman og verið þegjandi í sveitasælunni á meðan. Skálholt er yndislegur staður og frábær til að iðka hugleiðslu enda hefur Zen hópurinn farið þangað a.m.k. árlega sl. 5 ár ef ekki lengur. Það kemur reglulega upp í hugann sú spurning afhverju í ósköpunum ég sé að þessu og hvernig í veröldinni það hafi hvarflað að mér að fara að iðka zen búddisma sem kemur úr allt öðrum menningarheimi og iðkunin er svo ólík því sem við eigum að venjast hér. Þetta er mér hulið en það er eitthvað "óútskýranlegt" sem ýtti þessu af stað og knýr mig áfram. Iðkunin er langt frá því að vera auðveld og það er ekkert markmið í sjálfu sér og engin gulrót en samt er  eitthvað sem gerist og veldur því að mig langar í meira! 

Þegar ég sá fyrrverandi borgarstjóra við annan mann í Kastljósi á mánudag þá varð mér hugsað til þess þegar þetta ferli hófst hjá þeim, allir fullir bjartsýni og þá hvorugan hefur líklega órað fyrir því að þeir yrðu í þessari aðstöðu svona stuttu síðar...maður veit aldrei hvað lífið býður uppá, það er nú bara þannig - ég hafði samúð með borgarstjóranum fyrrverandi, held að ásetningur hans hafi ekki verið slæmur en að hann hafi gert mistök sem komu harkalega í bakið á honum. Við gerum öll mistök og þurfum að takast á við þau en það þarf ekki að úthella öllu þessu blóði - mér finnst svo oft að við viljum hefnd og að einhver þjáist svo hann finni verulega fyrir. Við vitum hins vegar öll að við þjáumst þegar við gerum mistök og þjáumst þótt við þurfum ekki að sitja fyrir framan alþjóð á meðan.  


Jólunum á...

Kalkúnninn sem ég fékk hjá Áslaugu vinkonu minni í gær var himneskur og það er hún líka - fannst nú minnsta mál að henda einu stykki kalkún í ofninn með tilheyrandi stuffing og meðlæti. Máltíðin hjálpaði mér að sætta mig við að fá hugsanlega ekki kalkún á jólunum...hef ekki hugmynd um hvar ég verð, kannski í Barcelona með tengdafjölskyldunni en annars? Ég var reynar búin að taka af mér loforð um að vera ekki heima um þessi jól - mælirinn fylltist á gamlárskvöld í sprengjulátunum - þetta er alltof mikið!

Jæja, tengdapabbi er kominn að sækja Pílu litlu sem verður örugglega glöð að sjá hann en það hefur nú bara verið gaman að hafa hana í heimsókn, þennan fjörkálf með biðjandi augnaráðið. 


Píla heldur uppi stuðinu

Afþví það hefur verið svo mikið að gera fannst okkur betra að taka hvolpinn Pílu í pössun í 10 daga. Píla er tæplega 5 mánaða labradortík (retriever labrador) og hefur hún haldið Nóa vel við efnið sl. viku. Þau eru núna að kjassast, hann ræður ennþá þar sem hann er eldri en hún er hins vegar mun stærri og ræður þannig séð við hann. Þau eru ferlega sæt saman og Nói á örugglega eftir að sakna hennar þegar hún fer heim. Það er nú líklegt að þau hittist brátt aftur því við erum á leiðinni til Stokkhólms í nokkra daga í lok mánaðarins þar sem Ástvaldur og félagar hans í Bardukha ætla að trylla lýðinn á sænskri tónlistarhátíð. Jú og áður en að því kemur þegjum við í nokkra daga í Skálholti þar sem zen hópurinn verður með sitt árlega sesshin. Þar verða batteríin hlaðin illilega en ég fæ að vera liggjandi þar sem bak og háls er enn ekki komið í stand þó ég sé á miklum batavegi. Ég hef lítið getað iðkað hugleiðslu sl. mánuði með hópnum og ég finn verulega fyrir því og gat ekki hugsað mér að missa af sesshin. Stundum finnst mér hugleiðslan ekki vera að breyta neinu fyrir mig en ég finn það þegar hún er ekki hluti af rútínunni hvað hún virkilega breytir miklu.  Það riðlast nefnilega svo margt annað í leiðinni finnst mér. Ég sé nú fram á það að geta iðkað hana meira og það í lóðréttri stöðu og það á ég ekki síst að þakka Helgu Jóakims sem hefur kennt mér Alexandertækni síðastliðnar vikur, þ.e. hún hefur verið með mig í heljarinnar therapíu. Stundum leitar maður svo langt yfir skammt. Helga er einn af stofnendum zen hópsins og hefur iðkað hugleiðslu í 20 ár. Ég er búin að þekkja hana í tæp tíu ár og alltaf verið á leiðinni til hennar út af bakinu því mig grunaði að það þyrfti að bæta og laga líkamsstöðuna. Helga hefur vitað að ég var ekki tilbúin til að koma, ég var alltaf að minnast á það og hún bara brosti og sagði að ég væri velkomin og það var svo í sumar sem ég loksins hafði það af að panta mér tíma hjá henni. Ég hef engar efasemdir um að hennar iðkun hefur skilað sér í hennar starf, það er hrein unun að fylgjast með henni og hvernig hún vinnur. Jæja, nú á að skella sér í kalkúnaveislu með vinkonunum, leggjast yfir tarotspil og bolla og kasta rúnum með vinkonunum. Ég ætti kannski að bjóða Pétri Tyrfings með...eða ekki. Hann er samt góður kall þó hann sé svona mikill KR-ingur (líking) og ég gæti að sumra mati verið að tala um sjálfa mig þó ég súpi hveljur yfir stóryrðum hans og er auðvitað mjög ósammála honum að flestu leyti en get bara ekki sannað það!!!

Það er þá aldrei...

Þetta hefur verið ansi gott bloggfrí en það er reyndar eina fríið sem í boði hefur verið síðan í júlí. Þetta hefur verið mikil törn að koma skólanum af stað en nú eru allt komið á fullt og nemendur okkar, sem eru yfir 200,  spila af fingrum fram á píanó og gítar. Stundum er ég alveg að gefast upp þegar ég sit yfir stundatöflunni og reyni að púsla öllu saman (sérstaklega þegar þeir sem hafa látið hafa mest fyrir sér hætta við en það er yfirleitt reglan að þeir sem sækja um síðastir og geta bara mætt akkúrat á þessum tíma bakka út og finnst ekkert sjálfsagðara). Kannski áttar fólk sig ekki á hvað það er gífurlega mikil vinna að koma þessu saman, vona að það sé ástæðan frekar en hrein ókurteisi eða tillitsleysi. EN það er svo skrítið að hlutirnir hafa tilhneigingu til að leysast og þess vegna er léttirinn mikill þegar allt byrjar að ganga sinn vanagang rétt eins og þetta hafi alltaf verið svona! Reyndar vaknaði ég einn morguninn mjög reytt (ekki bókstaflega) og búin á því og var alveg með það á hreinu að ég hefði aldrei ætlað að reka tónlistarskóla, það væri draumur annars manns (sem reyndar hefði ræst og ég hjálpað til við það) og ég var svo pirruð að ég skráði mig í B.A. ritgerð og gekk svo langt að tala við Þorbjörn Brodda og biðja hann um að vera leiðbeinandinn minn. Það var reyndar ferlega gaman að hitta hann aftur, okkur reiknaðist það til að það væru líklega meira en 15 ár síðan síðast sem sagði mér að ég væri heppin að geta yfirleitt klárað þessa blessuðu ritgerð. Þetta er nú líklega ein lengsta fæðing sem um getur á B.A. prófi og ferillinn minn í háskólanum minnti mig óþyrmilega á óákveðni mína um hvað ég hefði hugsað mér að verða þegar ég yrði stór (veit það ekki enn). Fyrir utan að ég hóf námið 1984 (sama ár og Tinna mín fæddist) þá byrjaði ég í félagsráðgjöf, skipti stuttu síðar yfir í uppeldisfræði og þaðan yfir í félagsfræði og útskrifast með 60 einingar í félagsfræði og 30 einingar í fjölmiðlafræði. Þetta er dáltið týpískt fyrir mig, vil gera allt og kynnast sem flestu en er samt í eðli mínu frekar íhaldssöm og Ástvaldur segir mig KR - ing, þ.e. ég geti verið ansi svört og hvít í skoðunum mínum meðan mér finnst ég bara vita hvað ég vil!

Jæja, búin að stimpla mig aðeins inn og þá er ekkert annað en að leggjast í heimildavinnu fyrir ritgerðina (búin að borga skólagjöldin en svo langt hef ég ekki gengið áður í pælingunni um að klára prófið). 


Samferða!

Það er kannski eins gott að ég hef verið orkulaus og ómöguleg
undanfarið því annars er hætt við að ég væri farin af stað að innrétta
húsið sem við vorum að kaupa og jafnvel búin að kaupa gólfefni o.fl. Ég
er reyndar búin að fara í eina skoðunarferð en ákvað eftir hana að
draga andann djúpt og slaka á og hugsa ekki um þetta fyrr en mesti
álagstíminn hjá Tónheimum er búinn enda fáum við húsið ekki afhent fyrr
en eftir áramót! Ég er bara oftast aðeins á undan sjálfri mér en ætla í
þetta sinn að reyna að vera samferða mér (hætt við að það breytist
þegar ég fyllist af orku á ný). Ég er búin að vera dálítið sorgmædd
undanfarið og sakna pabba míns. Hann var stór hluti af mínu daglega
lífi og ég er alltaf á leiðinni að hringja í hann eða á leiðinni til
hans. Mér fannst að fyrst ég væri þakklát fyrir að hann hafi fengið að
fara þar sem hann var orðinn svo þreyttur og lúinn, þá væri ég sátt og
fyndi minna fyrir sorginni. Ég hef hins vegar fundið sterkt fyrir henni
undanfarið. Að láta loka bankareikningum og visa korti, skila
afruglaranum o.s.frv. er eitthvað svo endanlegt, hvað þá að láta grafa
á legsteininn. En þegar ég sit með tárin í augunum þá get ég brosað í
gegnum þau þegar ég sé hann halda í hönd mömmu, sem var stóra ástin í
hans lífi. 

Skrifað í stein

Sagan segir að tveir vinir hafi gengið í eyðimörk. Á leiðinni fóru þeir að rífast og annar vinurinn haf hinum létt á kjammann. Honum sárnaði en án þess a segja nokkuð skrifaði hann í sandinn; "Í dag gaf besti vinur minn mér, einn á ´ann"

Þeir gengu áfram þar til þeir komu að vatnslind og þar fóru þeir út í. Vinurinn sem hafði orðið fyrir hinum áður var nærri drukknaður en var bjargað af vini sínum. Þegar hann hafði jafnað sig, risti hann í stein; "Í dag bjargaði besti vinur minn mér frá drukknun".

Vinurinn, sem hafði bæði veitt honum tiltal og bjargað honum spurði: "Þegar ég sló þig, skrifaðir þú í sandinn og núna skrifar þú í steininn. Afhverju?" Hinn svaraði:"Þegar einhver gerir þér eitthvað illt áttu að skrifa það í sandinn þar sem vindur fyrirgefningar getur eytt því. Þegar einhver gerir þér eitthvað gott áttu að grafa það í stein þar sem enginn getur eytt því. Lærðu að skrifa sárindi þín í sandinn og grafa hamingju þína í stein"! Það er sagt að það taki mann eina mínútu að hitta sérstaka manneskju, einn tíma að kunna að meta hana, einn dag að elska hana en heila ævi að gleyma henni.

Gefðu þér tíma til að lifa - og eigðu Góðan dag! 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 2831

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband