Færsluflokkur: Bloggar

Jólin koma brátt

Hef setið ansi vel við í dag og skrifað. Átta mig ekki á því hvað ég á mikla vinnu eftir í þessari blessuðu B.A. ritgerð en ég er komin í ham og vil bara ljúka þessu af svo ég geti gert allt annað sem ég þarf að gera. Þá er ég ekki að tala um undirbúning jólanna, þau mega bara koma hvenær sem er því ég ætla ekkert að undirbúa þau, bara vera til. Það eina sem mig langar að gera er að hitta fólk og njóta andartaksins. Er samt búin að hlusta á uppáhaldsjólalögin mín sem eru með Stevie Wonder (One little christmas tree og Someday at christmas). Nú er bara að setja jarðýtuna í gang og moka þar til verkinu er lokið - tuttugu og eitthvað árum síðar.

Hláturinn lengir lífið!

Stend mig að því að skellihlæja að Næturvaktinni. Ég komst varla í gegnum fyrsta þáttinn þar sem týpa Jóns Gnarr fór svo hrikalega í taugarnar á mér. Horfði þess vegna ekki á næstu þætti en datt inn í þetta aftur og finnst þeir mjög fyndnir.

Að öðrum þætti, Útsvari - hef líka lúmskt gaman að honum þó ég sjái hann nú ekki oft. Fannst sértaklega skemmtilegt að sjá Gurrí sl. föstudagskvöld. Gurrí hefur góðan húmor finnst mér, hún var nú ekkert að flíka honum í þessum þætti en hárbeittur húmorinn og stundum kolsvartur fellur mér vel í geð. Og talandi um spurningaþátt - einu sinni fékk ég Gurrí í slíkan þátt á Rás 2, man ekkert við hvern hún var að keppa eða mikið meira um þáttinn en hann var sem betur fer tekinn upp því hann fór í algjöra vitleysu sem skrifast algjörlega á mig. Við vorum rétt að byrja og ég var að útskýra reglurnar og ruglaðist svona illilega. Í stað þess að segja að það væri betra að reyna að skjóta á svarið en þegja þá sagði ég að það væri betra að skjóta sig...dálítið dramatískt en fékk sjálf svo mikið hláturskast (sem var reyndar frekar algengt á þessum árum) að það var ekki upptökuhæft í töluverðan tíma. Ég sakna útvarpsins stundum og hversu spontant miðillinn er - það getur allt gerst! Held að ég hafi bara einu sinni verið skömmuð fyrir fíflaskap en það var þegar við Magga Blö vorum með þátt saman að kvöldi til, held að hann hafi heitið Allt í góðu. Eitt kvöldið vorum við að byrja þáttinn og vorum ekkert í neinu fíflastuði en eitthvað gerðist í kynningu þáttarins og við fengum hláturskast og enduðum á því að loka bara fyrir míkrafónana og setja lag á. Reyndum svo að stramma okkur af og byrja aftur en það var eins og við manninn mælt, við fengum annað kast. Okkur fannst það hreinlega ekkert fyndið og var alveg lokið þegar þetta gerðist í þriðja skiptið. Held að við höfum leyst það þannig að önnur fór út á meðan andrúmsloftið róaðist. Sigurður G. eða Bubbi eins og hann var nú alltaf kallaður skammaði okkur aðeins daginn eftir. Þó þetta hafi nú ekki verið við hæfi og alls ekki ætlunin þá er nú fátt betra en gott hláturskast.


H10 - sport og spa

Það er ekki hundi út sigandi eru orð að sönnu því hundarnir horfa bara á mig undrunaraugum  þegar ég opna dyrnar og býð þeim að fara út. Það er samt eitthvað svo notalegt að hlusta á vindinn, við kertaljós og með kaffi og sneið af franskri súkkulaðiköku! Þetta er kannski fullmikið þegar skrifborðið er farið að titra! Mér leist ekkert á blikuna í gærkvöldi þegar ég lagðist til svefns en hugsaði að fyrst þetta hús hefði staðið á sama stað í tugi ára, þá myndi það þola þessa nótt, sem og það gerði því ég var enn í Heiðmörkinni þegar ég vaknaði. Var að hugsa um að nota veðrið sem afsökun fyrir því að fara ekki í ræktina en var það vel vöknuð að ég náði að hugsa mig um.

Já, talandi um ræktina - Anna Borg vinkona mín, sem hefur verið viðloðandi líkamsrækt svo lengi sem elstu menn muna (svona um það bil) var að opna tækjasal í húsi Knattspyrnuakademíunnar í Kórahverfinu í Kópavogi. Við hliðina er verið að byggja stærðarinnar líkamsræktarstöð og spa en hún ákvað að byrja með tækin og ég mæli með þeim. Fantagóð tæki og heimilisleg stemmning. Við gömlu fimleikatröllin og vinkonurnar mætum hjá henni þrisvar í viku í litlum hóp og það er auðvitað gott að hreyfa sig en miklu skemmtilegra í góðum hópi! Staðurinn heitir H10 sport og spa, www.h10.is

 


Mjólk - nei takk!

Ekki gerði kókos"bollan" sem ég fékk mér í gærkvöldi mikið fyrir mig, hafði ekkert fitnað í framan þegar ég leit í spegil í morgun. Fæ mér kannski aðra í kvöld og sé hvort það breytir einhverju. Það hefði kannski breytt einhverju hefði ég borðað hamborgara í kvöldmat en ekki steikt grænmeti á pönnu með brúnum hrísgrjónum og spínatsalati með furuhnetum. Maginn á mér hefur gert nokkrar uppreisnir og hann sættir sig ekki við mikið drasl og ég er hætt að nenna að láta mér líða illa - nema stundum og þá er ég alveg meðvituð um það vegna þess að ég veit orðið hvað ég þoli og hvað ekki. Mér var illt í maganum á hverjum degi frá því ég var krakki og þar til ég hætti að borða mjólkurvörur en það var ekki mikið talað um mjólkursykuróþol þegar ég var að alast upp og mjólkin var drukkin í lítratali fyrir utan súrmjólkina og skyrið sem rann ljúflega niður, hrært skyr með miklum sykri - eigum við að ræða það eitthvað frekar! Magapínan var bara þarna og ég hélt örugglega að hún ætti bara að vera þarna þar til fyrir nokkrum árum að mér fannst þetta ekki orðið ásættanlegt og lét athuga málið. Það er því ansi langt síðan ég hef drukkið mjólkurglas (fannst t.d. mjólk og súkkulaði unaðslegt) og drekk mitt sojalatte af bestu lyst!

 


Ó þú ert svo mjó, svo mjó að...

Mikið verður gaman þegar ég þarf ekki að ferðast milli bæjarfélaga til að versla í matinn (eins og mér hugnast). Það var frábært að fara út í búð í Berlín því í "venjulegri" matvörubúð var hægt að velja hvort þú vildir t.d. lífrænt ræktað grænmeti eða ekki. Mesta eftirsjáin úr Hafnarfirði er Fjarðarkaup - sem mér finnst mjög gaman að versla í og verðið allt í góðu - miðað við íslenskt verðlag þ.e.a.s.

Ég hef ákveðið að sætta mig við athugasemdir fólks yfir því hvað ég er grönn eða horuð eins og sumir segja. Ég hef látið þetta fara mikið í taugarnar á mér og finnst þetta sambærilegt við að segja fólki hvað það sé feitt, sem fólk gerir ekki á förnum vegi. Ég fæ gjarnan athugasemdir um að ég sé svo mjó og var  t.d. einu sinni sagt að ég yrði nú að fara að fita mig í framan...hvernig fitar maður sig í framan? Ég hef staðið mig ítrekað að því að reyna að verja mig....gjarnan með þeim orðum að ég sé 60 kg og ég þurfi ekki meir, sem mér finnst reyndar alveg rétt. Ég held líka að afþví fólk er að fitna almennt þá skeri ég mig enn meir úr en áður en ég hef bara alltaf verið svona og borða. Í stað þess að fara alla leið og fara að borða tóma óhollustu og úða í mig fitu og sykri svo ég fitni og falli betur inn í hópinn þá ætla ég bara að þakka fyrir næst og brosa út að eyrum! Ég uppljómaðist held ég í gær þegar ég hitti vinkonu mína sem ég hef ekki hitt í nokkurn tíma og hún sagði að ég væri eitthvað breytt. Ég, sem var að koma út úr gleraugnaverslun, með ný gleraugu brosti og tjáði henni að það væru örugglega gleraugun varð svolítið um þegar hún sagði að það væri ekki það heldur væri ég eitthvað svo mjó! Svona er nú lífið skemmtilegt!


Gleði og sorg!

Áttum yndislegan dag með fjölskyldu Ástvalds en tengdó hélt uppá sextugsafmælið sitt og bauð fjölskyldunni í brunch. Það er nú ómetanlegt að eiga góða tengdamömmu og það er mín svo sannarlega en mér finnst reyndar ótrúlegt að hún sé orðin sextug, hún er alltaf svo stelpuleg. Til hamingju með daginn elsku besta Dóra tengdamamma!

Það er eiginlega kynslóðabil á milli mín og Ástvalds því mamma hans er á svipuðum aldri og systir mín og afinn og amman á sama aldri og foreldrar mínir væru. Þetta hefur nú verið svolítið skrítið ár hjá okkur því við kvöddum Nenný ömmu Ástvalds og svo pabba. Það sem mér finnst þau hafa átt sameiginlegt er að það stafaði frá þeim svo mikil hlýja. Nenný náði að halda sínum karakter fram í andlátið en pabbi var kominn dálítið langt inn í sig og ósáttur við að geta ekki séð um sig sjálfur og þurfa að vera upp á aðra kominn. Það er svo skrítið að þó að hann hafi ekki verið mikill bógur síðustu ár og að stundum hafi hlutverkin snúist við þá fann ég mikinn styrk í honum og ég vissi alltaf hvað honum fannst vænt um mig og var mér þakklátur. Ég upplifði barnslega gleði þegar ég hafði skroppið í burtu í einhverja daga og kom aftur - þá fékk ég alltaf svo fallegt bros frá honum. Ég var spurð að því um daginn hvers ég saknaði mest, því ég sakna hans mikið og eftir smá umhugsun svaraði ég því til að það væri hans hlýja nærvera og ég get bætt við núna að það var líka frábært að eiga svona sterkan bandamann, sem aldrei á ævi minni sagði við mig styggðaryrði eða skammaði mig (og hefur nú stundum ekki verið vanþörf á).


Takk fyrir!

Er hrifin af nýja laginu frá Hjálmum sem mikið er spilað þessa dagana...Oft ég...o.s.frv. Finnst þetta vera gamalt lag en kannski hljómar það bara svona kunnuglega, átta mig ekki alveg á því. Nú eru nýju diskarnir að hlaðast inn þar sem jólin nálgast. Fannst alltaf gaman að vinna í útvarpinu á þessum tíma þegar allt fylltist af af nýrri íslenskri tónlist.

Fór allt í einu akkúrat 10 ár aftur í tímann. Var á fullu við að undirbúa 15 ára afmæli Rásar 2 sem var 1. desember en ég hélt utan um þá vinnu. Fékk símtal um hádegi einn daginn og í símanum var vinur minn, sem vildi endilega bjóða mér til San Francisco daginn eftir (ætlaði reyndar ekkert með mér) og sagði að ég mætti bjóða einhverjum með mér. Eins frábærlega og þetta hljómaði þá var þetta ekkert sérstaklega einfalt, ekki bara vegna þess að ég var á kafi í skemmtilegu verkefni og erfitt að henda því frá sér si sona heldur hafði ég ekki sest upp í flugvél í a.m.k. fimm ár vegna víðáttufælni. Þetta ár var ég búin að taka vel til í lífi mínu, hafði hætt að drekka um vorið og var farin að takast betur á við fælnina. Það gerðist eitthvað inni í mér og ég sagði bara já - án þess að vita hvernig ég ætti að fara að því að leysa þetta með vinnuna en miðað við að fara í flug fannst mér að það hlyti að vera lítið mál. Það leystist svo auðvitað og sá maður sem ég á það mikið að þakka heitir Óskar Ingólfsson og var yfirmaður minn þá en situr nú með mér í stjórn Zen á Íslandi. Við Solla vinkona fórum í 12 tíma flug daginn eftir, sem gekk alveg eins og í lygasögu. Við skemmtum okkur konunglega í borginni sem ég hef svo heimsótt nokkrum sinnum síðan og dvaldi í nágrenni hennar í hálft ár veturinn 2000-2001 þegar við hjónin fórum upp á Sonomafjallið að stunda hugleiðslu.

Áður en ég fór í þessa ferð var ég nánast búin að sætta mig við að vera bara alltaf á Íslandi, fannst það bærilegra en tilhugsunin um að fara í flug eða siglingu en í dag fyndist mér sá samningur ekki ásættanlegur. Það er sem betur fer hægt að ná tökum á þessu, ég vildi gera það án lyfja og valdi m.a. huglæga atferlismeðferð, sem er algjör snilld og svo hefur hugleiðslan auðvitað hjálpað mér og það að hætta að drekka. Áfengi er algjört eitur fyrir kvíða og það er ekki hægt að ná góðum árangri í baráttu við kvíða og þunglyndi ef það er með í för, þó í litlum mæli sé og hvað þá með lyfjum.

...svona er nú lífið skemmtilegt! 


Fjúki fjúk

Ég var ekki viss í morgun þegar ég fór framúr að ég væri stödd á sama stað á landinu og þegar ég sofnaði. Lætin í veðrinu voru þvílík í nótt að ég hélt að húsið myndi hreinlega takast á loft, það er svona þegar maður er kominn aðeins út úr og ekkert sem skýlir fyrir vindinum. Þetta er samt eitthvað notalegt. Ég gleymdi í óhappapakkanum að ég keypti mér agalega fín gleraugu um daginn, þurfti að bíða eftir þeim í hálfan mánuð og svo þegar þau komu var mælingin röng þannig að ég þarf að bíða eftir þeim í annan hálfan mánuð og til að kóróna þetta þá steig Ástvaldur á gömlu gleraugun þannig að þau eru öll skökk og skæld! Þetta fer nú samt ekkert illa í mig en þetta er orðið gott, Ingibjörg! Ó, þarf að drífa mig til hennar Helgu í Alexandertæknina - algjör snilld (segi ég og man þá eftir orðum hennar:"Þú verður að finna setbeinin en ekki sitja á hryggnum," og rétti í því úr mér í stólnum!  Góðar stundir!


Sjö, níu, þrettán

Hef orðið vör við í gegnum tíðina að ef t.d. eitthvað byrjar að bila þá fylgja yfirleitt fleiri hlutir í kjölfarið. Þetta á líka við um góða hluti en ég tek meira eftir því þegar um óhöppin er að ræða Því það lendir öðruvísi á manni. Held að þetta hafi byrjað núna þegar ólin slitnaði á töskunni minni og tölvan eyðilagðist. Svo komum við í "sveitina" og þvottavélin fór að leka. Uppþvottavélin fylgdi í kjölfarið og neitaði að taka inn á sig vatn og í dag fór púströrið á bílnum. Fyrir utan þetta eru svo óhöppin með hundana - þeir týndust og Nói datt í vatnið, einn bíllinn fór næstum á hvolf þegar húsbóndinn tók of skarpa beygju út úr innkeyrslunni og ég kæri mig ekki um að rifja meira upp í bili, vona bara að þetta sé orðið gott. Er eitthvað búið að breyta - allt er þegar þrennt er! Á síðustu árum man ég bara ekki eftir því að eitthvað hafi bilað en nú var greinilega kominn tími á það! Sem betur fer gefur lífið á móti þannig að ég er ekki komin í mínus og held mínu striki. Kannski bara gott að hafa í huga að fara sérstaklega gætilega meðan þetta gengur yfir.

 


Baywatch hvað!!!

Nói og Píla halda áfram að halda uppi "stuðinu" í Heiðmörkinni. Við morgunverðarborðið sátum við hjónin og horfðum dolfallin út á vatnið og dáðumst að fegurð þess og umhverfisins í kringum það. Úti var algjör stilla og "aðeins farið að leggja á vatnið" - man ekki alveg hvernig Ástvaldur orðaði það en ég kallaði hann í kjölfarið sveitalubba...auðvitað í jákvæðri merkingu en hann eyddi miklum tíma með ömmu og afa á yngri árum og notar því stundum önnur orð og orðasambönd en tíðkast í dag. Eftir morgunmatinn var ákveðið að fara í góðan göngutúr með hundana og var þeim hleypt út á meðan við klæddum okkur í vetrargallana. Þau hafa verið alveg til fyrirmyndar síðan þau fóru í smá ferðalag um daginn enda verið vel fylgst með þeim og nammigjafir notaðar við innkall og fleira í þeim dúr. Ástvaldur var að vanda aðeins fljótari en ég að gera sig kláran og þegar hann var kominn út heyrði ég hann kalla eitthvað...mér fannst það hljóma dramatískt en var ekki viss og heyrði heldur ekki alveg hvað hann sagði, hélt að hann væri að kalla á hundana. Ég hélt því áfram að taka mig til og stuttu síðar þegar ég kom út sá ég hvar minn heittelskaði var kominn þó nokkuð út í vatnið og teygði sig eftir Nóa, sem hékk örvæntingarfullur með loppurnar á klaka og á leið í kaf. Það var auðvitað hlaupið til og krílið vafið inn í handklæði og reyndum við að nudda í hann hita þar sem hann hríðskalf allur, fyrir utan væntanlega að vera dauðskelkaður. Það er ljóst að það mátti ekki tæpara standa þarna en hann átti sér einskis ills von þegar hann rölti út á ísinn...honum er svo illa við vatn að hann bakkar upp úr pollum ef hann stígur í þá. Píla hafði líka farið út í en hún gerir það reyndar á hverjum degi og þykir ekki tiltökumál enda er hún nú líka af allt annarri stærðargráðu en Nói. Hann var reyndar snöggur að ná sér og ekki að sjá að ævintýrið hafi slegið hann út af laginu en það er ljóst að hætturnar leynast víða!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 2831

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband