Færsluflokkur: Bloggar

Það má ekki...

Einn svona góðviðrisdag ákváðum við vinirnir að prófa nýja gamla víboninn sem strákarnir höfðu keypt saman og brunuðum (reyndar ekki alveg lýsandi því svona gamlir jálkar bruna hvorki eitt né neitt) út úr höfuðborginni og var stefnan tekin í sveitasæluna. Þetta var rétt eftir hádegi og sólin skein glatt og við vorum eins og kýrnar að vori, mikil gleði við völd og leikur í okkur. Áfangastaður var óráðinn, bara að komast út í náttúruna og spóka okkur á þessum fagra degi. Við beygðum að mig minnir við afleggjarann að Meðalfellsvatni og ókum eitthvað áfram og fundum svo stað til að leggja bílnum og stukkum út í náttúruna. Gengum um stund og sáum svo þessa girnilegu á sem við hlupum að og áður en langt um leið voru einhverjir komnir upp á stóran stein og fleyttu kerlingar niður eftir ánni og létu þess á milli þunga steina falla niður í ána með miklum göslagangi. Ég man að ég og vinkona mín sátum í brekku sem lá niður að ánni og slökuðum á þegar allt í einu arkaði framhjá okkur maður sem var svo þungur á brún að okkur stóð alls ekki á sama, sérstaklega þegar við sáum að hann tók stefnuna beint á saklausu vini okkar sem skemmtu sér svo vel við ána. Þegar hann nálgaðist þá byrjaði hann að öskra og steyta hnefann í átt að þeim. "Hvern djö... haldið þið að þið séuð að gera," öskraði hann og í kjölfarið fylgdi ræða um það hvort við áttuðum okkur ekki á því að við stæðum hopppandi og skríkjandi við eina mestu laxveiðiá landsins og fældum alla fiskana burtu meðan veiðimennirnir hefðu skroppið í hádegismat. Það versta við þetta er að við vorum ekki 17 ára eins og kannski mætti halda heldur stóðum við mun nær þrítugu þegar sunnudagsbíltúrinn lá að Laxá í Kjós með fyrrgreindum afleiðingum. Við skömmuðumst okkar auðvitað aðeins en þetta var náttúrulega svo drepfyndið að það þurfti engan hláturjóga til að kalla fram hlátursköstin hjá blessuðum "borgarbörnunum" á leiðinni heim.
Gleðilegt sumar!

Með þumalskrúfurnar á lofti

Vá, áttaði mig ekki á hvað ég hef verið lengi í burtu. Þetta er eins og með líkamsræktina, þegar maður hefur ekki farið í nokkra daga, hvað þá vikur, verður erfiðara að koma sér af stað...en hefst að lokum!
Íslandsmót iðnnema tókst mjög vel en ég verð að viðurkenna að ég var alveg búin eftir mótið, sérstaklega eftir að þramma um Kringluna í 10 tíma án þess að fara inn í eina einustu verslun. Mér finnst gaman að svona skipulagningu en ég á orðið erfiðara með að vinna svona skorpuvinnu þar sem skrokkurinn er í skralli. Það góða var að ég tók loksins ákvörðun um að ég vildi ekki hafa bak-og hálsverk lengur og pantaði mér tíma hjá Dr. Eyþóri, sjúkraþjálfara með meiru. Ég er búin að fara tvisvar til hans og ekki get ég sagt að það sé gott að vera hjá honum en það er gott að fara frá honum. Það eru örugglega margir sem ganga bognir inn til hans en koma út beinir í baki með bros á vör. Ég þarf að vera mjög dugleg að gera æfingar og vera meðvitum um hvernig ég sit, ligg og hreyfi mig en ég er tilbúin til að leggja mikið á mig til að koma þessu í lag.

Annars er ég búin að hafa það mjög gott, við skruppum hjónakornin til Osló um páskana og heimsóttum Dóru og fjölskyldu. Vorum litlir túristar en náðum nú að rölta um brygguna og sitthvað fleira. Var reyndar skítkalt (sérstaklega fyrir kuldaskræfur) en bjart og fallegt veður, vonandi fer að birta svona til hérna líka. Nói litli fór í pössun í fyrsta skipti og var foreldrum sínum auðvitað til sóma. Hann fagnaði okkur vel þegar við sóttum hann og það var notalegt að fá svona góðar móttökur.

Og afþví ég er í ham núna hef ég tekið aðra mikilvæga ákvörðun og hún er að klára B.A. ritgerðina mína fyrir sumarið. Fyrst ég druslaðist til að fara aftur í háskólann og klára öll fögin þá verð ég að setja punktinn yfir i-ið. Ég er búin að setja sjálfa mig í straff að öðru leyti, þ.e. ég má ekki byrja á neinu nýju og spennandi fyrr en ég er búin með ritgerðina, ekki fara á námskeið eða taka að mér ný verkefni - nú eru þumalskrúfurnar komnar á loft og settar á mig en ekki aðra. Þannig að í sumar mun ég á Ítalíu skála í einhverjum unaðslegum ávaxtadrykk fyrir 5 ára brúðkaupsafmælinu og ritgerðinni! 

 

 


Lífið er hverfult!

Jæja, þá er nú Íslandsmót iðnnema að bresta á en það verður haldið á föstudaginn í Kringlunni. Mæli með að kíkja á það - 75 keppendur munu þar glíma við alls konar verkefni allan daginn. Það verður auðvitað léttir þegar það er yfirstaðið því þetta hefur verið ansi mikil törn þó ég hafi nú gaman af svona skipulagningu. Þetta hefur bara verið svolítið fyndið...hamast á skrifstofunni á morgnana og síðan stokkið út og brunað niður í Laugar í hádeginu og kennt jóga og svo aftur brunað á skrifstofuna. Ég sá þetta ekki alveg svona fyrir mér þegar ég tók að mér jógakennsluna, hélt að þetta yrði aðeins rólegra tímabil en þetta er nú alveg týpískt, hélt að ég væri búin að læra það en þá má nú bara vísa í síðustu færslu, þetta með holuna í götunni. Ég mæli með þessari bók, er nú ekki komin langt en þvílík gullkorn sem þar er að finna.

Lífið er svo hverfult - ég er með Kastljósið í gangi og var að horfa á viðtal við lítinn dreng sem kom systur sinni til bjargar þegar brjóstsykur hrökk ofan í háls hennar en móðir hans hafði tekið þátt í giftursamlegri björgun í fyrra held ég, sem sýnt var frá í Kastljósi í gær. Þar bjargaði hún, við annan mann, manni sem hafði farið í hjartastopp, með hárréttum viðbrögðum. Ég upplifði hverfulleikann svo sterkt þegar ég horfði á þetta og finnst svo mikilvægt að lifa lífinu "lifandi", að dvelja í andartakinu og eyða ekki tímanum til einskis! ...og er einnig áminning um að ég eigi að drífa mig á skyndihjálparnámskeið.


Af gömlum vana

Er að lesa frábæra bók...hún heitir The Tibetan Book of Living and Dying eftir tíbetska búddamunkinn Sogyal Rinpoche. Ég hef verið að spá í dauðann og öðlaðist nýja sýn á honum þegar ég horfði á manneskju anda frá sér í hinsta sinn um daginn. Ég hef alltaf óttast dauðann og hvað þá að horfa á manneskju deyja. Þetta andartak var einstakt og á því fylltist ég vissu um að dauðinn er upphaf en ekki endir. Ég hef alltaf haft trú á því að það búi nú eitthvað meira á bakvið þetta líf, mér finnst það einhvern veginn ekki ganga upp að trúa því að við fáum þetta eina tækifæri, sérstaklega þegar ég hugsa til þess hve aðstæðum og tækifærum er misskipt manna á milli. En þetta kemur væntanlega betur í ljós þegar ég legg upp laupana.

Í bókinni er m.a. verið að falla um hvernig við festumst í viðju vanans og spornum við breytingum og höldum fast í hugmyndir og hluti meðan allt er á hreyfingu.

1) I walk down the street.
There is a deep hole in the sidewalk
I fall in.
I am lost...I  am hopeless.
It isn´t my fault.
It takes forever to find a way out.

2) I walk down the same street.
There is a deep hole in the sidewalk
I pretend I don´t see it.
I fall in again.
I can´t believe I´m in the same place.
But it isn´t my fault.
It takes a long time to get out.

3) I walk down the same street
There is a deep hole in the sidewalk
I see it is there
I still fall in...it´s a habit
My eyes are open
I know where I am
It´s my fault
I get out immediately

4) I walk down the same street
There is a deep hole in the sidewalk
I walk around it

5) I walk down another street

Svo mörg voru þau orð... 


Hér og nú

Getur einhver lánað mér nokkrar klukkustundir sem ég get bætt í sólarhringinn? Bara í eina viku, lofa að skila aftur! Ef einhvern tímann hefur verið þörf á að anda inn um nefið og fylgja andardrættinum eftir...þá er það einmitt núna! Talandi um núna - það er það eina sem við höfum og ég er mjög upptekin af því að vera hér og nú á öllum þessum hlaupum. Það er þetta með boltann sem fer að rúlla...þegar allt fer á fullt hjá mér, eins og núna þegar ég er að sinna þremur vinnum, þá finnst mér full ástæða til að fara að skoða nýtt húsnæði fyrir skólann og þá er einmitt akkúrat besti tíminn til að hugsa sér sjálfur til hreyfings og ég er farin að skoða húsnæði á fullu. Eins og elskulegur eiginmaðurinn sagði:"Fyrst þú ert komin af stað, þá er ekki aftur snúið. Við erum greinilega að fara að flytja." ÚPS!

Of mikið af því góða!

Brjálaðir dagar, þrjár vinnur eru aðeins of mikið af því góða auk þess að vera að ganga frá kaupum á eign sem gjaldkeri zen og að skoða húsnæði fyrir tónlistarskólann okkar. Sem betur fer róast nú hlutirnir þegar íslandsmót iðnnema er búið, þ.e. 23. mars en ég tók að mér að skipuleggja það fyrir mína gömlu vinnuveitendur. Mér finnst það reyndar gaman en myndi njóta þess betur ef ég þyrfti ekki að sinna málum Tónheima og jógakennslu í leiðinni. Reyndar nýt ég þess í botn að kenna jóga, hafði reyndar ekki í hyggju að fara að kenna en ákvað að slá til þegar ég var beðin um að kenna hádegistíma þrisvar í viku í Laugum og sé ekkert eftir því. Ég geri þá jóga sjálf!

Jæja, x factor í gangi...það var að minnsta kosti einn brilljant þar í kvöld - eiginmaðurinn með nikkuna! Hann var auðvitað flottastur (maður stendur með sínum) og ég er glöð að hann var með "Ég vann" á sviðinu þar sem hann er langbesti keppandinn.  Hef ekki fleiri or um þessa keppni.


Hratt flýgur stund

Enn ein helgin að fljúga framhjá, mér finnst dagarnir einum of fljótir að líða, sérstaklega helgarnar. Reyndar hefur heilmargt gerst um helgina, m.a. tók Nói þátt í hundasýningu í Reiðhöllinni í Víðidal og hreppti þar annað sætið. Hann byrjaði mjög vel en var undir lokin búin að tapa einbeitingunni og hafði meiri áhuga á að skoða hundana í kringum sig en að standa kyrr og stara út í loftið (og auðvitað biða eftir namminu sem því fylgir að standa kyrr). Við sátum í áhorfendastúkunni og fylgdumst með því við vorum svo heppin að fá hana Erlu til að sýna hann og stóð hún sig með mikilli prýði og það gerði Nói líka!
Í dag fórum við á annars konar sýningu, nefnilega leiksýningu. Við hjónin fórum með barnabarnið svo og tvö önnur  að berja þá Karíus og Baktus augum. Leikritið tekur aðeins hálftíma í sýningu sem mér finnst aðeins of stutt, við rétt búin að drösla öllum inn, klæða úr úlpum, húfum o.s.frv. þegar nammigrísirnir kvöddu. Börnin höfðu mjög gaman af þessu og þá var nú tllgangnum náð. Ömmubarnið var kannski ekki alveg að ná boðskapnum því það fyrsta sem hann bað um að leiksýningu lokinni var sleikjó!
Við vorum svo með 12 manns í mat, fjölskyldu Ástvaldar og matseðillinn var einfaldur - Lasagna, salat og brauð og ís á eftir - málið dautt. Notaleg stund og góður dagur.


Tala bara íslensku

Plís x factor dómarar, tala bara íslensku. Þetta er íslenska útgáfan á
x factor og mér finnst þeir ekki nægilega fagmannlegir að sletta svona
og tala unglingamál. Reyndar gerir Einar það ekki, hann er reyndar
einstaklega  orðheppinn finnst mér og fagmannlegur. Ég veit ekki
hvað ég er að reyta mig yfir þessum þætti!

Fyrirgefðu, fyrirgefðu, fyrirgefðu....

Dóttir mín var að gera grín að mér í dag þegar ég sagði við vinkonu
mína að "við" þyrftum að láta klippa Gunnar. "Við, sem eigum hann,"
sagði hún en ég tala stundum eins og ég sé líka mamma hans (sem ég er í
raun ef við sleppum þessu emmi þarna fyrst). Sem betur fer hefur dóttir
mín góðan húmor og ótrúlega góða lund, sem hefur oft bjargaði henni í
þessu nábýli okkar (hljómar eins og dauðadeild). Ég get auðvitað verið
algjörlega óþolandi, sérstaklega þegar kemur að því hvað þau eigi að
gefa barninu að borða og hvað þau sjálf eigi að láta ofan í sig. Ég man
eftir þvi að hafa hringt niður til þeirra, þegar pizzasendillinn kom
einu sinni óvart á efri hæðina, til að vera viss um að þau myndu ekki
gefa Gunnari þennan óþverra! "Hringir hverfislöggan," segja þau þegar
ég hringi og skammast sín ekki einu sinni fyrir það. Það er nefnilega
spurning hver á að skammast sín og ég hef oft beðið þau fyrirgefningar
og beðið þau um að taka hóflegt mark á mér þegar ég er í ham (þó
auðvitað sé allt rétt sem ég segi). Og talandi um fyrirgefningu - Ég
man eftir þættinum Fyrirgefðu sem Felix Bergsson var með á Skjá einum
um árið. Mér varð einhvern tímann hugsað til þess að ég hefði þurft
heila þáttaröð til að koma öllum mínum fyrirgefningarbeiðnum á
framfæri. Það er nú bara þannig að ég var hrikalega stríðin og
hömlulaus á köflum (sérstaklega þegar ég drakk, sem var nú ein af
ástæðunum fyrir því að ég hætti fyrir 10 árum, nánar tiltekið 1. mars
1997). Ég talaði hreinlega tungum þ.e. tungan talaði einhvern veginn
alveg sjálf án þess að ég stjórnaði hvað hún sagði og ég var stundum
ótrúlega hissa á því hvað kom út úr mér og ég hefði stundum gleypt
tunguna hefði ég getað. Þetta hefur lagast mjög mikið, svo mikið að ég
hef ekki séð lengi hræðslusvip á andlitum fólks þegar það nálgast mig.
Þegar ég hugsa til baka þá byrjaði þetta löngu áður en ég byrjaði að
drekka - vinkona mín hitti eitt sinn kennarann okkar frá því í
grunnskóla, sem var að spyrja hvað við værum að bardúsa vinkonurnar.
Þegar hún sagði henni að ég væri farin að vinna í útvarpi sagði
hún:"Mikið óskaplega er ég fegin að  hún fær loksins borgað fyrir
að tala." Svo mörg voru þau orð en ég segi bara - fyrirgefðu!

Hippalegur herragarðseigandi!

Var að panta íbúðir i Monterosso, sem er einn af 5 bæjum í Cinque Terre á Ítalíu. Þetta er ótrúlega flott svæði af myndum að dæma a.m.k. og ég vona að íbúðirnar líti út í raunveruleikanum eins og á netinu. Maður veit aldrei alveg hvað verið er að kaupa, t.d. gistum við á flottum herragarði nálægt Verona einu sinni - myndirnar á netinu voru ekki alveg nýjar því blessaður herragarðurinn mátti muna fífil sinn fegri en þetta var samt hið besta mál því Carlo, herragarðseigandinn, var alveg kostulegur. Hann sinnti gestunum sínum vel, þ.e. eftir kl. ellefu á kvöldin og frameftir nóttu ef hann náði að klófesta einhvern og fá með sér í rauðvínsdrykkju. Hann sást minna á daginn því auðvitað verður fólk að hvílast eftir að hafa sinnt ferðamönnum fram eftir nóttu. Það er óhætt að segja að tískustraumar hafi haft lítil áhrif á Carlo, hvort sem það var nú í klæðaburði eða t.d. hárgreiðslu. Það var eins og hann hefði verið skilinn eftir þarna árið 1970 og gleymst að sækja hann! Hippinn á herragarðinum!
Í þessari ferð fórum við m.a. til Feneyja og komumst algerlega hjá því að setjast í nokkurn bát! Við gengum um allt, langaði til að feta þessa þröngu stíga og skoða mannlífið! Þegar við ætluðum að skoða kirkjuna á Markúsartorginu kom upp vandamál því Ástvaldur var alltof fáklæddur til að komast þar inn. Hann var í stuttbuxum og bol, buxurnar urðu að ná niður fyrir hné og bolurinn vel yfir axlir og því miður uppfyllti hann hvorugt þessara skilyrða. Ég fór því inn og hann beið fyrir utan en svo fannst okkur ómögulegt að hann gæti ekki skoðað blessaða kirkjuna þannig að ég lánaði honum gollu sem ég var með, sem var rétt tæplega hálferma þegar hann var komin í hana (sé núna að einhver hönnuðurinn hefur barið hann augum þarna og fengið hugmynd að ermunum góðu sem hafa tröllriðið tískunni undafarið ár). Nei, ekki gekk það því buxurnar voru enn of stuttar og vörðurinn orðinn hálfpirraður á að þurfa að endurtaka þetta. Þegar við erum á leiðinni út stoppar okkur maður sem hafði séð til okkar og það var ekki flóknara en það að maðurinn vippaði sér úr brókunum og rétti Ástvaldi, sem hugsaði sig ekki tvisvar um heldur skellti sér í þær og dreif sig inn í kirkjuna. Ég stóð hjá manninum og spjallaði við hann á meðan og fékk ekki sætan svip frá eiginkonunni þegar hún kom út úr kirkjunni og fann manninn sinn buxnalausan!  Einhvern veginn fannst mér þetta skrítin hugsun hjá þeim þarna á ítalíu þar sem jesú t.d. birtist manni nú ekki fullklæddur á krossinum!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 2833

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband