Færsluflokkur: Bloggar
25.2.2007 | 21:17
Hundalíf
Svei mér þá ef við hjónin erum bara ekki að missa vitið! Fórum á æfingu áðan - með hundinn- en hann er að fara á sýningu um næstu helgi. Ég hef ekki lítið gert grín að "hundafólkinu" sem hleypur með misgáfulegum hlaupastíl í hringi með hundana sína á þar til gerðum sýningum. Mér hefur alltafa fundist þetta vera mjög sérstök "tegund" og nú tilheyri ég henni." Horfði stolt á þegar hann stóð alveg kyrr, var reyndar ekki alveg eins hlýðinn í hlaupinu. Við hjónin höfðum reyndar aldrei rætt um hver færi með hann í hringinn því áður en að því kom fengum við upphringingu frá ungri konu sem við könnumst við, sem vildi fá að æfa sig á Nóa því hún væri að þjálfa sig í að sýna hunda. Þannig að þá var það mál leyst. Kemst ekki lengra, erum að fara að horfa á Departed.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 21:43
Á faraldsfæti
and fun eða vera í fertugsafmæli en í stað þess ligg ég undir sæng (og
hundurinn auðvitað við hliðina á mér steinsofandi), borða popp og var
rétt áðan að panta mér nokkrar bækur á Amazon. Ég habbði bara ekki orku
í að fara klæða mig upp og fara meðal fólks þar sem mikið álag hefur
verið á fjölskyldunni síðustu viku. Ég fékk meira að segja förðun í dag
því ég var í myndatöku í Laugum (allir kennararnir voru myndaðir) en
það dugði ekki til. Svo ég ligg fínt meikuð undir sæng! Var að tala við
Dóru vinkonu áðan sem býr í Noregi og ákváðum við að hittast um páskana
- þannig að við ætlum til Osló um páskana, gaman gaman. Fór til hennar
fyrir ári síðan og þá fórum við og renndum okkur á sleðum í heilan dag
- varð 10 ára aftur. Það var glampandi sól, logn og kannski 10 stiga
frost - alveg himneskt. Svo lítur út fyrir að við förum til Berlínar í
vor en til stendur að Bardukha spili þar á tónleikum, ferð með Iceland
Express - hef aldrei komið til Berlínar en lengi langað þangað. Mig
langar líka til Sonoma (þar sem við stundum hugleiðslu reglulega) en
það lítur ekki út fyrir að við förum þangað í ár en sem betur fer kemur
Roshi (zen meistarinn okkar) hingað í október. Hann er yndisleg
manneskja og að koma til Sonoma þar sem hann og Shinko konan hans búa
er svo gott að orð geta ekki lýst þeirri tilfinningu sem fylgir því að
dvelja þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 22:43
Það er padda í matnum!
Ég og hundurinn liggjum í sófanum og horfum á x-factor (hundurinn reyndar steinsofandi og ég skil hann ágætlega). Mér finnst þessi keppni ekki ná flugi og er ferlega ósátt við dómarana, þeir eru keppnismenn og keppa innbyrðis og það bitnar stundum með ósanngjörnum hætti á keppendum því oft eru þeir að reyna að ná höggi hver á öðrum. Mér finnst þeir bara ekki nógu professional á köflum. Veit ekki hvernig ég nenni að vera að pæla í þessari keppni en maður er nú bara ekki betur gefinn en þetta. Það vantar enn x factorinn í keppnina en færeyingurinn - ég vann - er pottþéttur, minnir mig á jamie cullum og hlakka til að heyra hann syngja jassballöður í framtíðinni.
Ætti að vera kátari eftir að hafa borðað uppáhaldsmatinn minn, taílenskan, og það frá Ban Thai. Það er ekki hægt að fá betri taílenskan mat keyptan hér (á reyndar eftir að fara til Boga og hans konu á Álftanesinu). Náum okkur reglulega í mat á Ban Thai og NaNa thai, sömu eigendur (eiginkonan eldar á Laugaveginum en maðurinn í Skeifunni). Mæli með Tom ka kai súpunni, Massaman kjúklingi og auðvitað Pad Thai núðluréttinum. Við keyptum einhvern tímann mat á taílenskum skyndibitastað og þegar við vorum að byrja að borða heima sáum við eitthvað hreyfast í matnum - ojoj. Ástvaldur hringdi á staðinn og sagði að það væri padda í matnum. "Já, pad thai - hvað mikið" sagði sú sem svaraði í símann á ekki svo mjög góðri íslensku. "Nei, það er PADDA í matnum," sagði Ástvaldur og fékk sama svarið. There´s a bug...byrjaði hann og fékk svarið:"þú tala bara íslensku, ég skilja". Á eftir fylgdu ýmis orð frá Ástvaldi yfir hin ýmsu skordýr en allt kom fyrir ekki, konan var alveg viss um að hann væri að reyna að panta pad thai! Þó ég hafi verið með velgju eftir þessa skyndilegu hreyfingu í matnum þá lá ég á þessu stigi á gólfinu í hláturskasti og þetta endaði með því að Ástvaldur kvaddi og konan var enn að bíða eftir að heyra hvað hann vildi pad thai fyrir marga!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2007 | 18:12
Vesenisgjald
Fór í klippingu um daginn sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að þetta getur verið ægilega mikið mál fyrir mig og ég vorkenni oft hárgreiðslufólkinu sem fær það verkefni að klippa mig. Þess vegna fer ég yfirleitt til sama klipparans og skipti ekki nema á margra ára fresti. Klipparinn minn er mjög ásetinn og ég panta alltaf tíma þegar ég yfirgef stofuna svo ég sé örugg með að fá tíma (þegar tíminn kemur) en ég gleymdi því síðast og svo kom allt í einu dagurinn sem ég "varð" að komast í klippingu og auðvitað ekki séns að fá tíma hjá Svavari. Svo ég ákvað að vera djörf og hoppa inn á aðra stofu, sem var ekkert endilega mikið gæfuspor - sérstaklega fyrir klipparakonuna. Ég þóttist vera mjög líbó (fannst ég vera það) og sagði að hún mætti gera það sem hún vildi en auðvitað með ákveðnum formerkjum - stuttu síðar var það þannig að hún mátti gera það sem hún vildi svo framarlega sem það væri smart að mínu mati! Og hún byrjaði að klippa og smátt og smátt byrjaði að þyngjast á mér brúnin þar til ég gat ekki orða bundist og sagði að mér fyndist eins og ég væri með hjálm á hausnum. Ég reyndi að draga andann mjög djúpt og nota alla hugleiðslutæknina sem ég hef iðkað en það dugði ekki til og ég var að missa út úr mér setningar eins og þessa og sú næsta var að mér fyndist ég kellingarleg (miðaldra konan - sjá aðra færslu). Á endanum var búið að klippa af mér nánast allt hárið og ég var samt ekki sátt. Ég held að það sé allt í lagi með klippinguna en hún var bara ekki alveg eins og ég vildi hafa hana - hún sagðist vera að gera það sem hún héldi að passaði best við andlitsfallið (ég var nú ekkert að segja henni að það tæki því ekki miðað við það sem mamma hennar Karó vinkonu sagði einu sinni, þ.e. að andlitið á mér væri svo lítið að það væri bara sýnishorn). Þó ég væri nú ekki yfir mig hrifin reyndi ég að slá á létta strengi (um leið og ég hugsaði að ég myndi aldrei fara þangað aftur) og spurði hvort þau væru með sérstakt vesenisgjald fyrir svona erfiða kúnna og þó hún hafi örugglega reytt hár sitt þegar ég var farin hló hún með mér (og vonaði að ég kæmi aldrei aftur). Þannig að nú er næsta verk að hringja og panta tíma hjá Svavari - hann er nú líka ekki mikið að velta sér upp úr því ef ég er að kvarta - bara skammar mig og segir að ég hafi ekki vit á þessu - eða um það bil!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2007 | 15:13
Hvað er x-factor?
Jæja, þá er miðaldra konan búin að fara í ræktina svona rétt til að reyna að lyfta brjóstunum aðeins upp (sem gerist ekki) og koma í veg fyrir að það sjáist ekki munur hvar rassinn endar og lærin byrja...og svo kenndi ég einn jógatíma, ekki síst til að auðga andann, ná slökun svo ég missi nú ekki stjórn á mér næst þegar einhver segir að ég sé miðaldra!!!
Sá í Fréttablaðinu í dag að Einar Bárðar er brjálaður yfir því að Siggi hafi dottið út í X-factor. Ég er reyndar ekki alveg að ná þessari keppni og allra síst dómurunum. Mér finnst það gleymast að þetta snýst um að hafa x-factor, sem snýst um meira en að hafa góða söngrödd og hvað þá hvort dómararnir fíli lagið sem keppendur flytja. Lagaval skiptir máli en ef þú hefur x-factor þá geturðu nánast sungið bíbí og blaka og hrifið fólk með þér. Mér finnst þessi keppni farin að snúast um hver getur þanið sig mest og það á við bæði GÍS og Sigga. Less is more segir einhvers staðar og ég held að það kæmi keppendum til góða að hafa það í huga! Ég var reyndar alveg sammála Palla þegar hann sagði að honum fyndist hann alltaf hafa verið að hlusta á sama lagið hjá Sigga en það er hins vegar óumdeilanlegt að hann hefur góða rödd - mér finnst hann hins vegar ekki hafa sama x-factor og GÍS sem ég vona að þenji sig minna næst. Keppnin mætti vera aðeins meira professional, dómararnir eru of heimilislegir og svei mér ef það vantar ekki bara einhvern x-factor í þessa keppni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2007 | 10:43
Miðaldra eða ekki!
Fór á laugardagskvöldið í Borgarleikhúsið að sjá Eilífa hamingju og varð ekki svikin. Þetta er hin besta skemmtun og broddur í því líka og leikararnir sem ég þekkti ekki (segir mér kannski að ég sé orðin miðaldra) stóðu sig vel og það var snilldarlegt upphafsatriðið þegar "sigurvegarinn" var í höfuðstöðu (og það ekki bara venjulegri) í heillangan tíma og hreyfðist varla - greinilega farið í einn eða tvo jógatíma sá!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2007 | 10:07
...og missa sig meira
Eftir á að hyggja finnst mér það ótrúlegt að bara einu sinni hafi ég verið skömmuð (man örugglega bara ekki eftir hinum skiptunum) en það var þegar við Magga Blö vorum með kvöldþætti á Rás 2 (get alls ekki munað hvað þeir hétu). Það vita þeir sem hafa heyrt og séð Margréti að störfum að þar fer enginn trúður þó vissulega hafi hún góðan húmor og hún hafði yfirleitt meiri stjórn á sér. Það gerðist hins vegar eitt kvöldið að við komumst ekki lengra en að bjóða gott kvöld en þá brast eitthvað og við fengum óstjórnlegt hláturskast. Sem betur fer í útvarpi er nú hægt bara að loka fyrir og spila eitt lag og koma svo aftur inn en það var ekki að ganga þetta kvöld því um leið og við opnuðum aftur fyrir hljóðnemann fengum við kast....þetta var fyndið fannst okkur í fyrsta og kannski annað skiptið en svo var þetta bara alls ekkert fyndið en það tók okkur þó nokkurn tíma að ná stjórn á okkur og við orðnar hálf hysterískar. Mér fannst nú reyndar dáldið fyndið þegar ég var í útsendingu á Rás 2 strax eftir hádegisfréttir og hlustendum var boðið að hringja inn í einhverja getraun - Eitthvað skolaðist símanúmerið til hjá mér og ég gaf óvart upp símanúmerið hjá vinkonu minni (sem var á þeim tíma að lesa undir próf í tannlæknadeildinni) sem hafði ekki eins mikinn húmor fyrir því akkúrat þá því síminn hringdi auðvitað látlaust og allir vildu gefa henni rétta svarið við getrauninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2007 | 09:48
Að missa sig
Las bloggfærslu ibbu sig um hláturskast í beinni útsendingu sem ýtti á einhverja takka hjá mér og upp rifjuðust ýmis köst sem gerðust sem betur fer í útvarpi en ekki sjónvarpi. Eina sem ég man eftir frá sjónvarpinu var þegar Tindur í útsendingunni setti mig í mynd (þegar ég var þula í þrjár mínútur eða svo) þar sem ég hálflá í stólnum (auðvitað í gallabuxum en einhverju meira tilheyrandi að ofan) með textablaðið í hendi. Þá voru stundum myndir frá þáttunum hafðar á skjánum en þulan las undir en af helberum kvikindisskap (sem ég auðvitað hafði gaman af) setti Tindur mig í mynd.
Ég var mjög óhefluð þegar ég byrjaði í útvarpi en ferillinn hófst með auglýsingalestri á Stjörnunni gömlu og góðu árið 1987 (algjörlega frábær tími). Ég var algjör trúður og fannst alveg tilheyrandi að lesa auglýsingarnar með færeyskum hreim ef ég var í þannig stuði og svo fékk ég hláturskast af minnsta tilefni eins og t.d. eftir að ég auglýsti 10 tommu vörubíl-átti víst að vera 10 tonna en hver sér muninn? Einhvern tíma stjórnaði ég spurningaþætti á Rás 2 og man einmitt eftir því að Gurrí (sögur úr himnaríki) var einn af keppendunum. Ég var að útskýra reglurnar sem ég man nú ekki alveg hverjar voru nema að ég ætlaði að segja að það væri betra að skjóta heldur en þegja en mismælti mig aðeins og sagði að ef keppendur vissu ekki svarið væri betra að skjóta sig!
Af algjöru hugsunarleysi spilaði ég lagið Road to hell eftir að ég óskaði Bjarna Tryggvasyni geimfara góðrar ferðar út í geiminn og einhvern tíma las ég upp tilkynningu um týnda stelpu (rétt áður hafði ég hent í tæknimanninn flýti diski með bítlunum og sagði eitthvað lag...bara númer sex) og brá heldur í brún þegar lagið fór af stað og fyrsta sem heyrðist var You´re gonna loose that girl...
Lísa Páls hefur líka átt nokkur góð mismæli - einu sinni kynnti hún viðmælendur svona:"Hingað eru komnir tveir bræður og sonur þeirra" og í annað skipti þegar hún var að fara yfir hvað væri á döfinni sagði hún:"...og þeir sem ætla að svetta úr skaufanum um helgina..." það var meira að segja endurflutt áður en einhver tók eftir að það var eitthvað sem kannski passaði ekki alveg...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2007 | 14:44
Flensa eða ekki flensa!
Ég kann ekki að vera veik, ekki nema þegar ég fæ inflúensu en hana hef ég sem betur fer ekki fengið í nokkur ár. Ég veit ekki afhverju ég læt það stundum pirra mig þegar fólk segist alltaf (ok oftast) vera með flensu þegar það veikist eitthvað. Flensa er bara orðið annað orð yfir það að vera veikur finnst mér. Það liggja margir veikir núna en það hafa ekki greinst mörg inflúensutilfelli og það leynir sér ekkert þegar hún stingur sér niður - síðast hélt ég virkilega að ég væri að deyja (hefur kannski pínulítið með dramatík að gera og sjúkdómahræðsla getur væntanlega spilað eitthvað inní þetta). Þetta er nú ekki þess virði að pirra sig yfir en ég fæ stundum óstjórnlega löngun til að útskýra fyrir fólki sem er veikt hver einkenn flensu séu og spyr kannski og það dáldið fruntalega hvort það sé með yfir 40 stiga hita, svæsna hálsbólgu og geti vart reist höfuð frá kodda! Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að maðurinn minn kallar mig KR-ing, ég sé stundum svo svört og hvít, sem er reyndar alveg hárrétt hjá honum.
Ég er sem sagt veik núna - tek það fram að ég er ekki með flensu eða flensuskít eins og sumir segja og fær mig til að gleypa extra mikið loft. Ég er að reyna að taka því rólega en finnst að fyrst ég er heima þá ætti ég nú að setja í vél, ganga frá hreinum þvotti, strjúka yfir gólfin o.s.frv. Ég er að æfa mig í að sleppa og vera ekki alltaf með heimsins áhyggjur á herðum mér og stundum hálfpartinn aðrar manneskjur. Pabbi er t.d. veikur og ég er alveg ómöguleg að geta hreinlega ekki tekið sársaukann frá honum. Hann segir aldrei neitt við starfsfólkið á hjúkrunarheimilinu og svo er ég að reyna að tala fyrir hann og er misjafnlega vel tekið því sumt starfsfólk heldur að ég sé að segja að það vinni störf sín ekki nægilega vel. Það er alls ekki það og ég reyni að vera eins kurteis og ég get en ég er stundum að reyna að segja að ég þekki hann orðið vel og hann segir mér t.d. að honum líði ekki vel en segir öðrum að það sé í lagi með hann. Hann er alveg ferlegur þetta yndi - hann reyndi að telja mér trú um að hann þyrfti bara aðeins að hvíla sig og sofa óværuna úr sér en þá hafði hann fengið heilablóðfall. Hann reyndi líka að sannfæra lækna slysó að það væri allt í lagi með hann, en þá fékk óhemjan ég nóg og spurði lækninn hvort hann sæi virkilega ekki, bara með því að horfa á þjáningarsvipinn á andliti mannsins fyrir utan svipinn sem birtist þegar hann var að hreyfa hann til, að það væri eitthvað mikið að. Þeir sættust á að senda hann í myndatöku og það kom í ljós að hann var mjaðmagrindarbrotinn og fór í aðgerð daginn eftir.
Sem betur fer hef ég hitt miklu fleira hjúkrunarfólk sem er gott í því sem það er að gera en hina en þeir setja samt alltaf svartan blett á störf hinna, því miður og gera það að verkum að traustið minnkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2007 | 14:15
Get ekki sagt nei
frekar ákveðin manneskja sem segi hug minn allan, að ég er t.d. alls
ekki eins ákveðin þegar kemur að m.a. pössun á barnabarninu. Ég á bara
mjög erfitt með að neita dóttur minni um pössun. Ég segi mjög sjaldan
nei og reyni yfirleitt allt hvað ég get til að geta orðið við bón
hennar. Hún er reyndar ekki alltaf að biðja um pössun en það má segja
að þetta hafi verið samvinnuverkefni þar sem við búum öll í sama húsi.
Ég er t.d. alveg hundþreytt núna og hún bað mig í gær um að passa í
kvöld og nótt og ég sagði að ég gæti það ekki, yrði að hvíla mig aðeins
þar sem ég væri útkeyrð. En nú er ég auðvitað búin að bjóðast til að
passa svo litla barnið mitt geti haldið upp á afmælið sitt, varð 23 í
vikunni. Mér finnst auðvitað alveg dásamlegt að hafa Gunnar litla hérna
(er reyndar mjög stór strákur) og það er fátt notalegra en að fara á
fætur á sunnudagsmorgni og borða nýbakaðar vöfflur, sem Gunnar bakar
með afa sínum. Það er heldur ekki verri tilfinning að vera að gefa
honum hollt nammi því auðvitað er um að ræða speltvöfflur án sykurs og
svo fær hann lífrænt ræktaða náttúrulega sykraða bláberjasultu ofaná og
smá rjóma auðvitað! Við erum mjög upptekin af matarræðinu, erum búin að
vera að breyta því hægt og rólega á síðustu árum en tókum svo stökk í
vetur og tókum út hveiti, hvítan sykur og ger. Það er vinna að gera
þetta en mér finnst árangurinn þess virði. Það er reyndar mun
fljótlegra að baka brauð og vöfflur heima heldur en að fara út í
bakarí, það tekur án gríns 5 mínútur að hræra saman í brauðið og henda
því inn í ofn. Jú, þú þarft að bíða eftir því í tæpan hálftíma en ég
get lofað ykkur því að það er þess virði! Halelújah!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Með sjálfri mér
Myndaalbúm
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 2833
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar