Færsluflokkur: Bloggar

Hvað skiptir máli?

Ég hef tekið eftir því undanfarið að mér finnst ákveðnir hlutir mega sín óskaplega lítils í samanburði við aðra. Sem dæmi gerði ég mistök um daginn í fyrirtækinu mínu sem varðaði einn kúnnann og hann varð vægast sagt fúll við mig eða eins og hann orðaði það: "Ég er ekki ánægður". Ég er nú ekki þekkt fyrir að vera mjög dipló og umburðarlyndi er ekki orð sem ég býst við að verði mikið notað í minningargreinum um mig, en ég baðst afsökunar og innilegrar afsökunar - þó þetta hafi verið svona skriffinskumistök sem höfðu engar afrifaríkar afleiðingar í för með sér, nema bara þær að hann varð ekki ánægður. Á meðan ég var að biðjast afsökunar (mér fannst þetta í alvöru leiðinlegt) þá hugsaði ég með mér að vonandi lenti hann ekki í meiriháttar áföllum í lífinu, því ég byði ekki í hvernig hann myndi bregðast við því ef þetta færi svona illa með hann. Það má ekki gera lítið úr því sem fólk glímir við en undanfarið finnst mér svona hlutir einhvern veginn svo mikið húmbúkk miðað við t.d. erfið veikindi, kynferðislega mistnotkun og annað ofbeldi sem margir þurfa að búa við svo árum skiptir...og ef ég fer að hugsa út í heim þar sem fátækin og stríðsvofan vomir yfir daglega, þá skipta svo fáir hlutir virkilega máli í sambanburðinum. Þannig að ég hunsa orðið mikið til eitthvað væl í sjálfri mér eða tala "móðurlega" til mín og segi: "Gyða mín, hugsaðu um alla þá sem virkilega eiga bágt og eru að berjast fyrir lífi sínu þessa stundina" og svei mér þá ef þetta er ekki að virka. Ég veit að hugleiðslan og lífsstíllinn eykur samkennd og ýtir undir umburðarlyndi, sem mér finnst sterkt í zen búddisma en ef það er að skila sér af púðanum og út í lífið sjálft, þá biður maður ekki um meira.
...Hlæ inni í mér núna því ég man eftir atviki þar sem mér leið mjög illa og píslarvotturinn hafði yfirhöndina þá stundina...ég var að tala við góðan vin í síma sem benti mér á hvað ég gæti verið þakklát fyrir að ég væri heilbrigð, ætti heilbrigt barn, hefði góða vinnu o.s.frv. Ég man bara að í miðri upptalningu sagði ég bless og skellti á því þetta var svo innilega ekki það sem ég þurfti að heyra og fór að hágráta á eftir yfir skilningsleysi vinarins yfir því hvað ég átti bágt!!!


Endemis bull og þvæla

Ég trúi ekki öðru en að lögfræðingi formanns kraftlyftingasambandsins líði undarlega vegna ummæla um skjólstæðing sinn í Fréttablaðinu í morgun. Ég fékk þvílíkan kjánahroll þegar ég las frétt um að formaðurinn hefði keypt "heilu stæðurnar" af alls konar töflum og dóti í góðri trú um að þarna væri á ferðinni lögleg fæðubótarefni. Hann hefði alls ekki flutt töflurnar inn og því síður ætlaði hann að selja þær - hann hefði bara keypt þetta til að prófa sjálfur hvernig þetta virkaði. Kannski hefur staðið á hverri dollu að taka ætti inn 300 töflur á dag, hvað veit ég, en hjálpi mér allir heilagir - að bera svona bull á borð er náttúrulega út í hött og mér sýnist formaðurinn þurfa að fá sér nýjan lögfræðing ef hann ætlar að eiga séns á að þurfa ekki að taka út refsingu fyrir þetta.

 


Ég læt mig dreyma

...ævintýradrauma eins og Ellen sagði í eurovisionslagara um árið og bætti svo við: hugurinn ber mig hálfa leið. Það er einmitt það sem er í gangi núna því ég er komin hálfa leið til Ítalíu í sumarfrí. Hef lært það að það er eins gott að vera snemma á ferðinni í skipulagningu sumarfrís ef ætlunin er að fara ákveðinn stað og vilji er til að fá fargjöld á góðu verði. Það er sem sagt búið að bóka ferð til Mílanó og þaðan á að gera út í allar áttir, upp til fjalla, inn til dala...eins og segir í öðru dægurlagi. Ítölsku alparnir, ítalska rivíeran og hið frábæra svæði Cinque terre. Það er svo satt sem segir í Draumalandi Andra Snæs að hugmyndir kvikna á mörgum stöðum í einu og það upplifðum við m.a. þegar við vorum að spá í þessi svæði á Ítalíu. Stuttu síðar fóru ferðabæklingar að detta inn um lúguna þar sem boðið er upp á ferðir akkúrat á þá staði sem við ætlum að skoða í sumar, ferðir sem ekki hefur verið boðið upp á áður. Skondið!

...svo finnst mér frábært að Tinna og Gunnar (barn og barnabarn) skuli koma með. Þá viku sem þau verða er ætlunin að vera á rivíerunni í sólbaði. Uhumm, þeir sem mig þekkja vita að það verður erfitt að stilla mér upp á sólbekk, er þegar byrjuð að skoða hvort það er ekki vatnsrennibrautagarður og eitthvað í þeim dúr á þessu svæði en mér finnst alveg fáránlega gaman að leika mér á svoleiðis stað - man enn eftir angistarsvipnum á Tinnu þriggja ára í slíkum garði á Mallorca. Sáum ekki alveg fyrir fljúgandi ferðina á dekkjunum sem við flutu (flugum) á niður eina brautina í garðinu og í stað þess að njóta bununnar snérist ferðin um að komast hjá því að drekkja börnunum. Er líka viss um að ég þarf að suða talsvert til að fá Tinnu með mér í rennibrautirnar en ég veit að það þarf ekki nema eitt orð til að fá Gunnar með. Hann er reyndar fulldjarfur finnst mér en við höfum farið mikið með hann í sund og byrjuðum með hann nokkra mánuði í ungbarnasundi. Amman og afinn fóru með hann, foreldrarnir lítt hrifinir af sundlaugum og kannski hefur Tinna aldrei jafnað sig á salíbununni góðu -  margt sem maður má hafa á samviskunni!!!


Á fullri ferð

Jæja, sá gamli búinn að koma sér fyrir á Grund (lesist: Ég búin að koma þeim gamla fyrir á Grund) og hann er nú bara nokkuð brattur, þrátt fyrir tvö föll á einum degi og laskað hné. Ég er búin að hamast í honum að fara varlega, hann er nefnilega gamall fimleikamaður og er enn að taka tillhlaup... æðir um með göngugrindina frekar en að taka eitt lítið skref í einu eins og ég sé margt heldra fólk gera. Það kom því vel á vondan í gær þegar gamla fimleikakonan (ég), sem er líka dáldið þekkt fyrir að fara framúr sjálfri mér, flaug á hausinn í hálkunni í gær. Var að verða of sein í nudd, stökk út úr bílnum og búmm. Sem betur fer var lendingin nokkuð góð og ég uppskar bara nokkra marbletti. Er stundum að hlæja að sjálfri mér (jógakennaranum) þegar ég er á leiðinni í kennslu á alltof miklum hraða til að kenna fólki að slaka betur á - anda rólega inn um nefið og út um munninn. Sit stundum í bílnum með axlir upp að eyrum, andstutt og á fullri ferð, alveg að verða of sein!  Er manni ekki við bjargandi?


Óásættanlegt

Þá er nýtt ár hafið og fer hratt af stað hjá mér. Er rétt búin að starta Tónheimum - sem betur fer vilja margir láta draum sinn rætast og læra að spila á píanó eftir eyranu! Yngsti nemandinn er 4 ára og sá elsti 84 ára. Byrjaði að kenna jóga eftir áramótin í Laugum og kenni hádegistíma þrisvar í viku - finnst það mjög skemmtilegt og hjálpar mér við mína jógaiðkun, sem hefur ekki verið mikil síðan sl. vor. Síðast en ekki síst tók ég að mér 3ja mánaða verkefni fyrir minn gamla vinnuveitanda, Mennt, við að skipuleggja Íslandsmót iðnnema sem haldið verður í lok mars. Þannig að nú er eins gott að anda rólega og taka eitt skref í einu svo úr verði ekki ein kaos!

Þessi verkefni eru samt mjög léttvæg við það verkefni að flytja pabba gamla inn á hjúkrunardeild á elliheimilinu Grund eftir helgi. Plássið losnaði sl. miðvikudag og hann verður fluttur áður en vikan er liðin og vissi ekki einu sinni af því fyrr en á föstudaginn. Ég get varla byrjað að skrifa um þetta án þess að ég fyllist reiði fyrir hönd eldra fólks. Staða þeirra í samfélaginu í dag sæmir ekki þeim lífsgæðum sem í boði eru árið 2007. Ég er búin að fá smá innsýn í málefni aldraðra í gegnum pabba og hans þrautagöngu undanfarin ár. Hann er búinn að liggja tvisvar sinnum í heilan mánuð á spítala á árinu, ekki afþví hann hafi þurft að liggja þar svo lengi heldur vegna þess að hann gat ekki farið heim því það var ekki aðstaða til að annast hann þar. Hann hefur búið á litlu og notalegu sambýli fyrir aldraða undanfarin ár en síðastliðin tvö ár hefur heilsu hans hrakað mikið og hefur hann beðið eftir hjúkrunarrými eins og sagt er án þess að nokkuð hafi gerst. Svarið er oftar en ekki að það séu nú margir í hans stöðu og jafnvel verri. Það er náttúrlega hrikalegt en það einhvern veginn bætir það hans stöðu ákaflega lítið og það hefur verið ömurlegt að horfa upp á hann í þeirri stöðu að þurfa mun meiri hjálp en hægt hefur verið að veita honum. Starfsfólkið á sambýlinu hefur gert allt sem það hefur getað til að létta undir en það breytir því ekki að þetta er eins og ég hef sagt við svo marga aðila í heilbrigðisstéttum undanfarna mánuði - ÓÁSÆTTANLEG STAÐA fyrir heldra fólk! Ef þetta er pólitík, sem ég myndi halda, þá er ríkisstjórnin með allt niðrum sig í þessum málaflokki og á ekki skilið að sitja áfram. 


Úff jólin eru búin

Þetta voru nú meiri jólin og áramótin - þau fóru alveg öfugt í mig og ég gat ekki beðið eftir að þau væru búin áður en þau byrjuðu. Mér finnst þetta bara orðið eitt allsherjar rugl og orðin ein allsherjar auglýsingaherferð frá upphafi til enda. Kannski er þetta bara skapvonska í mér, sem er nú frekar jákvæð að eðlisfari og kannski hafði það eitthvað að segja að ég var veik nánast allan tímann en samt fer ég ekki ofan af því að við þurfum - sem heild - að taka okkur saman í andlitinu og tóna þetta eitthvað niður. Ég er alveg viss um að það eru mjög margir sem sogast inn í jólaæðið...fyrir utan stærri og flottari gjafir þarf auðvitað allt að vera komið í toppstand fyrir jólin heima til að fullkomna jólastemninguna. Já, sem sagt held ég að margir sogist inn í þetta og eyði auðvitað langt um efni fram, bara afþví þetta er eitthvað sem þarf að gera og "allir" gera!!! Ég verð bara að segja að mér er ofboðið og ég er búin að taka loforð af manninum að við verðum fjarri brjálæðinu um næstu jól. Ég ætla að fara til útlanda, eitthvert þar sem rólegheit eru og ég þarf ekki að vera í jólaskapi sem ekki er innistæða fyrir. Reyndar var mér bent á að það væri nóg fyrir mig að fara í sveitina hérna heima, það er alveg rétt og ég tek það til greina en ég held samt að ég fari eitthvað lengra. Mér finnst bara innst í hjarta mínu eitthvað svo rangt við þetta og sé til dæmis hvernig tíminn sem eytt er í Kringlunni og Smáralind gæti farið í auknar samverustundir fjölskyldunnar. Við verðum auðvitað að taka ábyrgð sem einstaklingar og erum ekki viljalaus verkfæri en ég held samt að það geti verið erfitt að brjóta sig út úr þessu og sérstaklega ef maður ekki er meðvitaður. Ég upplifði það svo sterkt þegar ég dvaldi á Zen setri í hálft ár hversu hugurinn getur ruglað mann ótrúlega. Alla vikuna var ég bara sátt upp á fjalli með það sem ég átti og hafði en um helgar þegar við fórum í borgarferð og inn í verslanamiðstöðvar þá allt í einu vantaði mig allt. Allt varð svo eftirsóknarvert og það fór einhver gömul maskína í gang - mér fannst þetta óhuggulegt þó ég hefði nú oft látið hugann hlaupa með mig í gönur...það orðatiltæki lifnaði svo sannarlega við. 

....annars bara allt í góðu og Nói dafnar vel. Hann var reyttur í fyrsta sinn í dag (ekki reyttur eins og ég) heldur bókstaflega reyttur á honum feldurinn. Hann átti óskaplega bágt þegar við komum, þetta er víst dáldið sárt á sumum stöðum en hann stóð sig eins og hetja og er nú sléttur og felldur með loðnar augnabrýr og stutt skegg. Við erum ótrúlega ánægð með hann og erum viss um að við höfum fengið gott eintak, geðgóðan og í góðu jafnvægi en líka fjörugan og með húmor. Húmorslaus maður eða hundur á sér bara ekkert líf segi ég og sem betur fer hef ég nú húmor fyrir þessari geðvonsku í mér, annars yrði ég nú bara að pakka saman og segja pass!

Gleðilegt ár!


Voff

Ætlaði á þessu momenti að vera að labba inn í Smáralind en sit við tölvuna yfir morgunmatnum með hálsbólgu og hausverk. Ekki það að ég sakni þess sérstaklega að vera ekki í Smáralind. Mér finnst miður skemmtilegt að vera í verslanamiðstöðvum á þessum tíma árs en þó skást að fara þegar verið er að opna og vera svo farin þegar ösin byrjar. Sem betur fer erum við tiltölulega róleg í þessu jólaæði og erum meira að hitta fólk í heimahúsum en í verslanaleiðangri. Talaði við verslunareiganda í gær sem sagði að fólk væri hreinlega að tapa sér, hann hefði aldrei séð annað eins síðan hann hóf rekstur fyrir 15 árum síðan.  Hallelújah!

Eiginmaðurinn fyllti fjórða áratuginn í síðustu viku og fer sýnist mér nokkuð vel inn í þann fimmta. Hann er ekki með bumbu eða skalla (ekki það að mér finnst það nú bara krúttlegt) en nokkur grá hár í vanga. Hann er sem sagt alveg jafn myndarlegur og hann var þegar ég hitti hann fyrst og meira að segja orðinn kattliðugur enda mætir hann reglulega á Kung fu æfingar hjá Heilsudrekanum. Það vita það ekki margir að þar kennir kínverskur Kung fu meistari og Ástvaldur fær stundum einn að njóta kunnáttu hans þar sem ekki margir vita af hve góða þjálfun er hægt að fá þarna. Ég gleymdi auðvitað að minnast á að innrætið hefur ekki versnað hjá öðlingnum en ég var svo upptekin af útlitinu að ég næstum gleymdi innlitinu!

Hvolpurinn dafnar ansi vel hjá okkur, er auðvitað ótrúlega gáfaður og fljótur að læra fyrir utan hvað hann getur svo verið skemmtilegur líka. Ég var í vafa fyrst hvort við hefðum verið að gera rétt með því að fá okkur hund, fannst ég vera mjög bundin og sá fyrir mér að ég yrði bara að vera meira og minna heima næstu tíu árin. Aðeins hefur nú losnað um þetta en þetta er auðvitað binding og sérstaklega þar sem ég á nú heldur ekki auðvelt með að skilja hann mikið eftir heima einan. Hann kvartar ekki og er örugglega fegin að losna við okkur smá stund enda fær hann alltaf eitthvað gott að naga og er upptekin af því dágóða stund. Ég er hætt að efast og er viss um að þetta gefur meira en tekur að eiga hund og svo finnst mér þetta gera Gunnari (barnabarninu) mjög gott. "Hæ ástin mín," segir hann þegar hann kemur og segir að Nói sé besti vinur hans, passar uppá hann ef gestir eru þ.e. að allir viti örugglega að þetta er hundurinn hans svo ekki gæti misskilnings. Gaman gaman. 


Ég um mig...

Allt í einu hellist yfir mig að aldurslega séð stend ég ekki í stað en mér hefur hingað til ekki fundist ég deginum eldri en tvítug. Það er hins vegar erfitt að halda því til streitu þegar tengdasonurinn er orðinn 25 ára, dóttirin að verða 23 og barnabarnið þriggja ára. Svo ætlar eigimaðurinn að kóróna þetta allt saman með því að fagna 40 árum í næstu viku. Allamáttugur segi ég nú bara á innsoginu eins og mamma sagði alltaf í gamla daga og ég má sitja á toppnum með árin mín 43. Þetta er nú ekki alvarleg krísa og ég verð að segja að ég væri ekki til í að vera orðin tvítug aftur (í þessu lífi) nema þá með þá reynslu sem ég hef í dag. Ég fæ stundum alvarlegan kjánahroll þegar ég hugsa til baka og auðvitað massa af samviskubiti því ég var ansi óhefluð á köflum og einhvern veginn hafði ég á stundum óskaplega litla stjórn á því sem út úr munni mínum kom. Það væri örugglega sagt í minningargrein um mig að ég hefði verið mjög ákveðin kona sem ekki hefði legið á skoðunum sínum en heitir réttu nafni stjórnsemi og oft og tíðum skortur á umburðarlyndi. Sem betur fer hefur aldurinn og vinna á leiðinni skilað einhverju og ég svei mér þá orðin nokkuð húsvön en ég held hins vegar að hversu mikið sem mig langar til að vera þessi blíðlynda og umburðarlynda týpa, þá verði ég alltaf með sterkar skoðanir og liðtæk í að leiðbeina (stjórna) fólki með hvernig gott er að haga lífi sínu, t.d. með því að borða ekki of mikinn sykur, hvað þá aspartam o.s.frv.
Mér fannst samt mjög krúttlegt að dóttir mín skyldi gefa kærastanum nuddtíma í afmælisgjöf, fannst eins og ég hefði skilað einhverju áfram á góðan hátt.


Skreytt yfir skítinn

Jæja, allt gott að frétta af fjölskyldumeðlimum, Nói orðinn húsvanur eins og sagt er og þrifalegri en margur annar verð ég að segja. Erum komin af gjörgæslu og farin að horfa framan í hvolpinn en ekki bara á afturendann á honum. Fórum á stutt hvolpanámskeið hjá Sif dýralækni (systir Ástvaldar) og það var ansi fróðlegt. Þar voru hvolpar af öllu stærðum og gerðum, Nói var yngstur en Lara hennar Karó elst en þó langminnst. Lara er chiuhua tík og dvergvaxin að auki en það aftraði henni nú ekki frá því að taka fast á hinum. Hún er orðin 8 mánaða og því unglingur og það er ekkert ýkt þegar ég segi að hún hafi haldið hvolpagreyjunum í heljargreipum. Þeir svoleiðis vældu undan henni og henni fannst engin sérstök ástæða til að vara sig á Siberian Husky hvolpinum sem var þó uppundir 10 kíló en hún innan við eitt.

Það er svona spurning að fara að byrja að skreyta yfir skítinn eins og Magga vinkona sagði mér að gera þegar brjálað var að gera og enginn tími til hreingerninga. Ég er frekar sein til í ár því ég er yfirleitt komin mað skrautið upp þegar aðventan byrjar en rekstrarnámskeiðið sem ég var á alla síðustu viku kom í veg fyrir það. Var sveitt að gera viðskiptaáætlun fyrir næsta ár Tónheima en þetta var fínt námskeið sem ég fór á hjá Iðntæknistofnun. Kynntist mörgu góðu fólki, sem mér finnst nú ekki leiðinlegt.

Já og fyrsta plata hljómsveitarinnar Bardukha leit dagsins ljós í síðustu viku og voru haldnir frábærir og vel sóttir útgáfutónleikar á hinum nýja stað Domo. Ástvaldur minn fór auðvitað á kostum með nikkuna en þeir voru allir í miklu stuði og áhorfendur líka og neituðu að leyfa þeim að hætta. Til hamingju!

 


Nói mættur á svæðið

Ætla rétt að tékka mig inn - þetta var nú eins og ég hélt þ.e. að færslum myndi fækka hjá mér en ég átti nú ekki von á að það gerðist svona hratt (varla áður en ég var byrjuð). Það er búið að vera dáldið mikið um að vera og ég hef unnið á gjörgæslu sl. viku - ekki á Landspítalanum heldur heima hjá mér og það er ekki um eiginlegan sjúkling að ræða - alls ekki - heldur 9 vikna, nú 10 vikna hundkríli, sem heldur okkur á tánum. Ég hef fylgst með nánast hverju skrefi og einblínt á afturendann á greyinu, viss um að í næsta skrefi muni hann láta eitthvað gossa. Við erum með hann í stífri þjálfun og ég skal nú alveg viðurkenna að ég nánast blótaði því að við skyldum láta okkur detta í hug að fá okkur hund þegar veturinn er að ganga í garð. Í kuldakastinu sem hefur gengið yfir höfum við staðið norpandi úti og viðhaft sömu venju og inni þ.e. að mæna á afturendann á hundinum til að fylgjast með því hvort hann skili nú ekki einhverju af sér. Þetta hefur örugglega verið nokkuð fyndin sjón á stundum, ég tala nú ekki um þegar dimmt er orðið og maður sér ekki handa sinna skil. Fyrstu dagana var svo restin á fjölskyldunni í glugganum að fylgjast með!

Hundurinn, sem er svo auðvitað ómótstæðilegur, heitir Nói og er af tegundinni Dverg Schnauzer. Hann er kolsvartur með einn hvítan blett og bæði mjög rólegur en getur líka verið ærslafullur og uppátækjasamur. Eina sem við gerðum ekki ráð fyrir, þegar við sáum fyrir okkur notalega kvöldstund fyrir framan sjónvarpið með hundinn kúrandi hjá okkur, var hversu óskaplega mikið getur loftað um hann. Þetta er eins og að vera á stóru hverasvæði á stundum.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband