Hláturinn lengir lífið!

Vá, þvílík klikkun! Það var eins gott að það náðist hvíld í jólafríinu því síðan ég kom heim hef ég ekki stoppað. Skólinn byrjaði á mánudaginn og það hafa aldrei verið fleiri nemendur hjá okkur, sem er alveg frábært og við þó ekki þurft að kvarta yfir áhugaleysi landans. Það er bara svo brjálæðislega skemmtilegt hvað það eru margir sem vilja læra að spila á píanó eftir eyranu og nú gítar og harmónikku, til okkar flykkist fullorðið fólk á öllum aldri sem ýmist hefur aldrei lært eða lært á hefðbundinn hátt í stuttan eða langan tíma. Núna er mesta brjálæðið afstaðið og svo byrjar þetta að rúlla þegar allir eru komnir á sinn stað.

Ég náði líka mitt í þessu öllu að láta binda inn ritgerðina og skila á skrifstofu félagsvísindadeildar og svo bíð ég bara með naglalakkaðar tær eftir útskrift í febrúar...á reyndar eftir að mála og ýmislegt annað í nýja húsinu sem við fáum afhent eftir tæpar tvær vikur og já flytja líka. Það verður greinilega nóg að gera á næstunni, sem er bara fínt en ég stefni að því að flýta mér hægt og njóta andartaksins. Já þess vegna ætla ég að sitja dálítið og þegja um helgina með zen hópnum mínum - já og skjótast með hundinn á hundasýningu, svona til gamans. Veit nú ekki hvort við nennum að standa í að sýna hann mikið meira en hann er bara svo flottur og þetta er fín þjálfun fyrir hann. Áfram Nói!

Ákvað á sunnudagskvöldið, þrátt fyrir að vera dauð úr þreytu, að skella mér í bíó með gamla og fóstursonunum tveimur. Fórum á Death at a funeral, breska gamanmynd og mér fannst hún ótrúlega fyndin, algjör farsi, sem gekk vel upp. Mæli með henni til að létta aðeins lund í mesta skammdeginu. Það var gott að hlæja svona mikið, þó það sé nú ekki kvartað sérlega mikið yfir því að ég hlæji of lítið. Mér finnst ég reyndar hlæja lítið miðað við hvað ég hló mikið einu sinni en þá reyndar ofhló ég...hló að öllu og engu. Mér finnst óskaplega gaman að hlæja enda er það svo gott fyrir geðið!


Fjör á markaðnum!

Síðasti dagur ársins runninn upp og ég sit á hótelherbergi í Barcelona, á leið í áramótasturtuna og svo í fjölskylduboð í tilefni dagsins. Langar að fara í langa heita sturtu en hér er mikill vatnsskortur því lítið hefur rignt í ár og ég fékk samviskubit þegar ég heyrði að það eru túristar sem nota meira en helming þess vatns sem notað er hér (og ég lagði mitt af mörkum og fór í langa heita sturtu fyrsta daginn á hótelinu)...fékk samviskubit þegar Alex svili minni sagði að stundum spyrðu strákarnir litlu afhverju baðið væri ekki fullt hér eins og þegar þeir færu í bað á Íslandi. Sturtan verður því snörp en heit á eftir!

Annars eyddum við um það bil tveimur tímum á markaðnum í morgun í að kaupa í áramótamatinn. Fyrst stoppuðum við hjá kjötkonunni og sóttum kalkúnabringurnar sem Kolla mágkona hafði pantað fyrir helgi. Þær voru gerðar klárar fyrir fyllingu og einnig fengum við innmat og bein til að búa til soð og svo stakk hún slatta af steinselju ofan í pokann en hér kostar hún ekki neitt en kalkúnabringur fyrir 10 manns kostuðu um 15 evrur eða tæpar 1500 krónur! Síðan fórum við bása á milli því á einum stað eru sveppirnir og kartöflurnar betri en á þeim næsta eru bestu perurnar og mandarínurnar og svo framvegis. 

Mér finnst þetta alveg ótrúlega góð tilfinning, að nánast fá grænmetið, ávextina, kjötið og alles nánast beint af kúnni, horfa á beikonið skorið í sneiðar fyrir framan mann, kryddið ferskt, hneturnar sóttar í stóran poka og vigtaðar á gömlu vigtinni og  að öllu þessu loknu að setjast og fá sér einn góðan cafe cortado sem kostar ekki þúsund og eina eins og heima! Ég gæti alveg vanist þessu!

Kærar þakkir fyrir kveðjurnar - ég er ekki búin að fá ritgerðina til baka og veit því ekki meir en vona að þetta verði nú í lagi. Við höfum aðeins reynt að vinna hér líka enda byrjar tónlistarskólinn rúmri viku eftir að við komum heim og því nóg að gera að svara umsóknum og fyrirspurnum. Látið nú drauminn rætast og lærið að spila á píanó, harmónikku eða gítar eftir eyranu - allir saman nú!

Gleðilegt ár og munið að njóta andartaksins - það er það eina sem við höfum!

knús

Gyða 


loksins, loksins!

lalalalalalalala - ritgerðin farin úr mínum höndum (í bili) en ég náði takmarkinu og skilaði henni seinnipartinn í gær. Þvílíkur léttir og ég trúi því varla sjálf að mér ætli loksins að takast að klára þetta! Þetta er í þriðja sinn sem ég skrái mig í B.A. ritgerð og segir ekki einhvers staðar: Allt er þegar þrennt er - þannig að ég trúi því bara.

Fórum með vinum okkar út að borða í gærkvöldi, bæði til að fagna þessum áfanga en ekki síður afþví Ástvaldur átti afmæli. Fórum á Fiskmarkaðinn og vorum ekki svikin...fóum í ferðalag á staðnum þar sem hver dýrindis rétturinn af öðrum var borinn á borð fyrir okkur...ummmmmm! Vorum að tala um ritgerðarskrifin og þá datt út úr bogmanninum..."þú varst nú ótrúlega fljót að skrifa ritgerðina," ...og bætti svo við "eða kannski ekki. Tuttugu ár er kannski ekki lítill tími"?  Ég veit ekki hvort einhver hefur tekið lengri tíma í þetta en hvað...ef þetta klárast, er ég sátt og þá má ég líka velja mér eitthvað annað! Setti sjálfa mig í bann, mátti ekki fara á námskeið...í neinu fyrr en ég kláraði þessa ritgerð þannig að nú get ég gert eitthvað skemmtilegt eftir áramót og svo ætla ég að fara að kíkja á nám í Holistic health...sem ég hef mikinn áhuga á að stúdera.

jæja, ætla í göngutúr með hundana og svo í pottinn og gufuna í sundlauginni! 


bla bla...

Er að horfa á Kastljósið þar sem konugreyið sem lenti í hremmingum á JFK í New York er að segja frá reynslu sinni. Vá, þetta er ekkert grín og ég hefði ekki viljað vera í hennar sporum. Þetta er aðeins of mikið og reyndar gott betur og spurning hvernig þetta endar þarna hjá þeim fyrir vestan. Þeir eru nú ekki beint að slá í gegnu víða um heim!

Annars hef ég lítið fylgst með og það þarf alveg átak að skreppa í bæjarferð. Þurfti að skreppa í Þjóðarbókhlöðuna í dag og var á ferðinni síðdegis. Ég var þeirri stund fegnust þegar ég renndi í hlað hérna í "sveitinni" því umferðin var hrikaleg og greinilegt að jólastressið er í algleymingi. Ég harðneita að vera með þannig að það er kannski ágætt að ég skuli sitja við tölvuna og skrifa ritgerð. Það eru um það bil 1000 orð eftir og ritgerðin verður komin úr húsi seinnipartinn á morgun, sjóðandi heit i hendur leiðbeinandans!

Ég var samt ekkert viss um að ég myndi setjast hér niður í morgun því ég nánast hélt mér í bríkina á rúminu í alla nótt þar sem ég var viss um að húsið myndi takast á loft í þessu brjálaða veðri. Það lék allt á reiðiskjálfi og ég tréverkið sveigðist til og frá. Þetta var frekar óþægileg tilfinning og lætin héldu fyrir mér vöku frameftir nóttu. Hefði kannski átt að feta í fótspor annarra næturbloggara en nennti ómögulega þó að standa upp. Jæja, ekki meira bull, bara bla bla...


Gráðugræðgi eða hvað!

Mín er grimm í talningunni. Ritgerðin mín telur nú 4.941 orð sem þýðir að ég er um það bil hálfnuð og hef þrjá daga til stefnu. Vil gefa mér einn dag til að fara yfir hana og aðeins laga hana til. Svo eru það einhverjir dagar í óvissum meðan leiðbeinandinn minn fer yfir hana en ég verð væntanlega komin til Spánar þegar ég fæ komment á hana. Ég vona bara að þetta hafist og að ég útskrifist í febrúar, 23 árum eftir að ég byrjaði í Háskólanum. Dóttir mín sagði við mig í gær að hún vonaði að það tæki hana ekki svona langan tíma að klára sitt háskólapróf en hún fer örugglega að skilja afhverju ég hef lagt svona hart að henni í gegnum tíiðin að gefast ekki upp og notað til þess margar aðferðir og sumar óprútnar. Við foreldrarnir drógum um dökka mynd af því sem biði hennar ef hún hætti í menntaskóla og ég meira að segja hótaði að reka hana út úr íbúðinni sem hún bjó í á neðri hæðinni hjá mér ef hún ætlaði að hætta í skólanum því ég hefði eingöngu keypt svona stórt hús til að hjálpa þeim hjónaleysunum að komast í gegnum nám! Þetta hljómar illa en ég var ekkert reið þegar ég sagði þetta (sem hefur örugglega fengið hana til að trúa því að ég léti verða af því) og auðvitað hefði ég ekki hent henni út...litla barninu mínu, ónei!

Hvað um það, hún kláraði menntaskólann og með lítið barn og er nú komin í háskólanám og kærastinn búinn með fyrri hluta háskólanáms! Ekki það að ég sé mjög gráðugráðug en ég veit að í dag skiptir þetta meira máli þegar kemur að vinnu en áður. Ég hef verið mjög heppin að geta unnið við það sem mig hefur langað til að gera en ég er líka viss um að ef ég væri að sækja um vinnu núna í því sem ég hef unnið við þá gengi fólk fyrir sem væri með fleiri gráður en ég, þannig er þetta nú bara hvað sem mér kann að finnast um hæfni mína til að takast á við starfið...hins vegar er spurning um að hætta þessu bulli og snúa sér að félaglegri samvitund Durkheims!


Litlu snillingarnir í Tónheimum!

Ætla algjörleg að liggja með tærnar upp í loft um jólin? Það er stefnan, veit að ég kem reyndar ekki til með að liggja mikið...nema aðeins yfir jólabókunum. Við verðum átta saman og ákváðum að við myndum öll kaupa eina bók til að hafa með og svo getum við skipt. Ég held að ég kaupi bókina um Bíbí - ég hef farið til Bíbíar og þar sem mér finnst Vigdís góður penni finnst mér að þetta hljóti að vera góð blanda. 

Ég er eiginlega viss um að Ástvaldur kaupir bók Einars Más, hann heyrði hann lesa upp úr henni um daginn og leist mjög vel á. Mig langar líka til að lesa hana svo ég er sátt við það val. Svo kemur hitt í ljós. Veit reyndar að tengdó langar að lesa framhaldið af Karítas og mér líst líka vel á það. Hún gaf mér fyrri bókina í jólagjöf um árið og leist mér ekkert á valið til að byrja með. Ég hafði prófað að lesa bók eftir Kristínu Marju og gafst upp á henni þannig að ég var full fordóma þegar ég sá þessa bók og til að kóróna allt var hún árituð, sem var auðvitað gott á mig. Nú, ég ákvað að fara úr KR búningnum og lesa bókina og líkaði hún stórvel þannig að ég hlakka bara til að lesa hvað hefur drifið á daga Karítasar. Nú svo er ég mjög veik fyir glæpasögum þannig að ég kem til með að lesa Arnald, Yrsu , Árna þórains og Henning Mankell. Bók Hrafns Jökulssonar er líka á óskalistanum þannig að ég verð fastagestur á bókasafninu fram eftir ári.

Annars vorum við að slútta í Tónheimum í dag með þrennum jólatónleikum þar sem um áttatíu nemendur léku af fingrum fram hvert dægurlagið á fætur öðru og jólalögin ómuðu einnig um salinn. Yngsti nemandinn var fjögurra ára og elsti 16 ára en fullorðna fólkið sló í gegn sl. fimmtudag. Nú er bara að undirbúa næstu önn þar sem fleiri snillingar verða uppgötvaðir en það er alveg frábært að sjá þau spila, flest án þess að hafa nokkrar nótur fyrir framan sig, t.d. tók einn ellefu ára gamall lagið Piano man með Billy Joel, það var alveg magnað. Þetta eru algjörir píanósnillingar og gítardeildin er líka komin á gott skrið. 


Skreytt yfir skítinn...

Gafst upp á skrifunum um fimmleytið, ákvað að slá þessu upp í kæruleysi og ná mér í skyndibita. Hakkaði í mig franskar kartöflur og hamborgara - kannski ég fitni eitthvað í framan? Tók smá skurk í tiltekt og gerði pínu jólalegt...þó ég verði ekki á landinu um jólin. Ég tók ekkert jóladót með mér hingað, allt fór í geymslu en jólakúlur frá Ikea í stóra skál og rauð kerti í stjaka hér og þar gera nú bara heilmikið. Skreytt yfir skítinn eins og Magga Blö sagði alltaf. Fannst ég eiga skilið verðlaun og dældi í mig poppi, lakkrís og konfekti - afganginn frá "Litlu jólunum" í Tónheimum. Núna veit ég afhverju ég á aldrei nammi á lager...það yrði aldrei neinn lager og ég með stanslausa fótaóeirð - fæ alltaf gífurlegan pirring í fæturna ef ég borða of mikinn sykur. Er ekki hætt því ég er að horfa á hneturnar sem ég keypti í gær...nenni varla að brjóta utan af þeim, er það ekki hámarkið?

Ég fékk sting í hjartað af fréttunum af konunni sem hafði verið látin í marga daga áður en hún fannst. Þetta á ekki að gerast á Íslandi í dag! Það fyrsta sem ég sagði þegar pabbi dó sl. sumar var að ég væri svo fegin að hann skyldi ekki hafa verið einn þegar hann dó, að skyldum hafa fylgt honum úr hlaði ef hægt er að orða það sem svo því ég er sannfærð um að eitthvað annað tekur við þegar við förum héðan. Hins vegar skiptir mestu máli að einbeita sér að því sem er hér og nú þó það gangi nú misvel en maður heldur bara áfram að reyna og reyna og reyna...

Jæja, dagur að kveldi kominn og tími til að róa sig niður!


Þetta mjakast...

Ritgerðin mín telur nú 2.755 orð þannig að ég á eftir 7.245 til að ná tilskildri lengd! Það er svo erfitt að setjast niður en í lagi þegar ég er komin af stað. Þetta er algjörlega huglægt og gamall vani sem tekið hefur sér bólfestu í kroppnum vaknar af dvala. Hann lýsir sér þannig að ég verð ofurþreytt bara við tilhugsunina um að fara að læra og langar að leggja mig eða a.m.k. gera eitthvað allt annað. Uppvask og þrif hljóma meira að segja vel í samanburði við lærdóminn. Þarna finn ég að hugleiðslan sem ég hef stundað síðustu ár hjálpar mér því í stað þess að leyfa þessum hugsunum að malla þar til ég t.d. læt verða af því að leggja mig eða gera eitthvað annað, fókusera ég á andardráttinn og sleppi hugsuninni á fráöndum...aftur og aftur og aftur...

 


...af fingrum fram

Þarf að muna nún að anda inn um nefið og út um munninn...segi nú svona en er að stressast upp út af ritgerðinni sem ég þarf að skila í næstu viku. Var í Þjóðarbókhlöðunni eins og ekta nemandi áðan að kíkja á aðrar ritgerðir, svona til að sjá uppsetningu og heimildavinnu. Mér hefur alltaf gengið vel að skrifa en þetta með heimildavinnuna er erfiðara en það þarf auðvitað að vera í lagi og leiðbeinandinn minn lætur mig örugglega ekki komast upp með neina vitleysu þó ég hafi reynt að bera mig dálítið illa - er svo langt síðan ég var í skólanum og snökt snökt - minna má nú vera í sjálfsvorkunn. Í núinu er fólk í fullri vinnu og í fullu námi eins og ég er, ég er engin undantekning og þarf því bara að spýta í lófana og klára þetta. Má samt reyna að kría út smá samúð - er það ekki?

...verðum með "Litlu jólin" fyrir fullorðna nemendur Tónheima annað kvöld og jólatónleika fyrir krílin á sunnudaginn. Flestir okkar nemendur eru fullorðið fólk, sem alltaf hefur dreymt um að spila á píanó og látið drauminn rætast - eða lært á hefðbundinn hátt og langar í praktískara nám, að geta spilað dægurlög eða jass eða blús eftir eyranu (hljómum) og er komið í nám aftur. Það er erfiðara að fá fullorðna fólkið til að spila en börnin en það eru samt þó nokkrir sem ætla að setjast við flygilinn annað kvöld og spila fyrir hina - verður fróðlegt og gaman að sjá. Við vorum svo stolt í vor þegar hver nemandinn á fætur öðrum (frá 4 ára til 15 ára) steig á svið, settist við flygilinn og spilaði af fingrum fram og fæstir með nótur fyrir framan sig. Þetta var þeim flestum eitthvað svo eðlilegt og voru svo ófeimin við að spila fyrir fullan sal af fólki. Vona að þetta heppnist vel núna og verður gaman að sjá framfarirnar hjá þeim sem voru á tónleikunum í haust (þó þetta snúist allra mest um að njóta þess að spila, ekki hversu vel þú spilar). 


...að missa þráðinn

Nokkuð skrifað í bloggheimum um Bjögga og kommentið að hann fylgdist spenntur með Dancing with the Stars. Ég heyrði þetta svar hans og fannst ekkert athugavert við það, gat alveg trúað þessu uppá hann, þó ég kannski keypti það ekki að hann væri að deyja úr spenningi. Hvað Loga varðar þá finnst mér hann ekki gera eins og best hann getur í þessum þáttum en hann er að mínu mati góður fjölmiðlamaður og hefur staðið sig vel í gegnum tíðina. Hann getur nú alveg tekið svona húmor enda skortir hann ekki húmor sjálfur og bestu fréttirnar sem Logi hefur flutt (nei skemmtilegustu) hafa sýnt hann missa sig í hláturskast - það er  kannski kvikindislegt að hlæja að því þegar fólk missir stjórn á sér í beinni útsendingu en mér finnst það hrikalega fyndið því það er eitthvað svo "eðlilegt" - eitthvað sem gerist óvart. Ég hef sjálf nokkrum sinnum lent í því og þó það sé auðvitað vont á meðan, sérstakega ef umræðuefnið er alvarlegt er það  nú bara þannig að það jafnast fátt á við gott hláturskast, ef það meiðir engan!

Það getur nú komið fyrir á bestu bæjum að vera annars hugar og ná ekki alveg því sem viðmælandinn segir. Ástæðurnar geta verið margar og stafað m.a. af því sem er að gerast í umhverfinu. Ég man t.d. eftir einu atviki þegar ég sá um helgarþátt á Rás 2, við annan mann. Mér hafði tekist að fá í þáttinn mann sem ég hafði mikið reynt að fá í viðtal og þurfti að beita  fortölum því honum var illa við að koma í beina útsendingu. Nú, ég var búin að ná honum inn í stúdíóið og byrjuð á viðtalinu, þegar hinn stjórnandi þáttarins kom inn og tók sér stöðu fyrir aftan viðmælandann. Hann sér að síminn byrjar að hringja - ekki með hringingu heldur blikkaði rautt ljós á honum. Einhvern veginn hefur honum fundist hann þurfa að svara símanum (í miðju viðtali) en til þess að trufla nú örugglega ekki fór hann á fjóra fætur og skreið framhjá viðmælandum, fyrir framan borðið hjá mér, greip símann og "hvíslaði" þannig að það fór hvorki framhjá mér eða blessuðum viðmælandanum hvað var í gangi. Ég verð að viðurkenna að ég átti mjög bágt með að hafa stjórn á mér - ég var samt alls ekki við það að fá hláturskast heldur langaði mig mest til að standa upp og öskra á samstarfsmann minn en það var ekki í boði þannig að ég reyndi að einbeita mér að halda þræðinum í viðtalinu. Ég er ekki frá því að ég hafi einmitt misst af einhverju á meðan félaginn skreið framhjá okkur!


Næsta síða »

Um bloggið

Með sjálfri mér

Höfundur

Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Gyða Dröfn Tryggvadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Nói
  • Ástvaldur afi og Gunnar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband